144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

697. mál
[18:54]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum hér eins og fram hefur komið um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Er það í anda húsnæðisstefnu stjórnvalda að efla húsnæðissamvinnufélagaformið og gera því hærra undir höfði á íslenskum húsnæðismarkaði og freista þess að efla traust á því félagaformi og auka valfrelsi landsmanna í húsnæðismálum og tryggja betur húsnæðisöryggi.

Fram kom í andsvörum sem flokksbróðir minn, hv. þm. Helgi Hjörvar, átti frumkvæði að að ekki stendur til að mæta þeim heimilum sem urðu fyrir skuldahækkunum vegna verðbólgu í kjölfar hrunsins og hruns íslensku krónunnar þann skaða með sama hætti og þeim sem eru með séreign í sínu húsnæði en ekki leigufélögunum. Er það gríðarleg mismunun gagnvart fólki eftir búsetuformi. Ég held ég minni á það hér enn eina ferðina að af þeim 80 milljörðum sem eiga að fara í það að lækka skuldir heimilanna fara 51 milljarður til 30% tekjuhæstu heimilanna. Þetta er þá skýr forgangsröðun um það hvaða heimili eru þess verðug að njóta félagslegs réttlætis hægri stjórnarinnar.

Eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir benti á er þetta svona tæknilegt frumvarp. Þetta er eiginlega frumvarp sem krefst þess að það sé lesið mjög náið samhliða fyrirliggjandi lögum. Auðvitað er það alltaf gert með lagafrumvörp, en hér þarf að leggja vinnu í að setja saman frumvarpið og lögin til að auðvelda skilning á þeim breytingum sem verið er að gera. Ráðherra kom inn á það að þetta eru breytingar sem munu geta haft ófyrirséðar afleiðingar. Auðvitað hefur ráðherra lagt málið upp þannig að það sé sem best úr garði gert en hyggja þurfi að því við meðferð málsins í nefndinni að það sé örugglega ekki verið að gera breytingar sem geti haft ófyrirséðar afleiðingar. Við munum fara ítarlega yfir það og senda málið til fjölmargra umsagnaraðila.

Við fyrstu yfirferð mína á málinu hef ég einna helst áhyggjur af eftirliti með rekstri húsnæðissamvinnufélaga, að það séu einhverjir opinberir aðilar sem sinni því eftirliti. Svo þarf að meta hversu umfangsmikið það á að vera og hvernig því sé best fyrir komið. Þarna eru fjárhagslegir hagsmunir fólks í húfi og húsnæðisöryggi og því eðlilegt að hið opinbera taki ábyrgð eða sé fólki til halds og trausts varðandi það að verja hagsmuni þess. Það er líka verið að draga úr hlutverki ráðuneytisins sem var svo sem ekki mikið. Það var meira á orði en á borði.

Það er annað atriði sem ég vildi aðeins koma inn á sem gerir það einmitt að verkum að óþægilegt er að vera ekki að fjalla um öll þessi frumvörp samhliða, því að hér er verið að breyta því að ekki á að tilgreina Íbúðalánasjóð sérstaklega sem lánveitanda heldur fellur Íbúðalánasjóður þar með undir aðrar lánastofnanir. Það breytir auðvitað engu ef það er tryggt, en við vitum ekki um framtíð Íbúðalánasjóðs og hvernig starfsemi hans á að vera háttað. Það kemur fram í frumvarpi sem kemur víst ekki fyrr en í haust. En það er náttúrlega mikilvægt að tryggðar séu lánveitingar til félaga sem þessara sem geta svo líka fjármagnað sig á almennum markaði. Við vitum ekki á þessari stundu hvort ríkisstjórnin ætlar sér að greiða fyrir stofnstyrkjum til þessara félaga. Það er bagalegt að fjalla um þetta mál án þess að fjármögnunarhliðin, bæði tækifæri þeirra til fjármögnunar og fjármögnun af hálfu hins opinbera, liggi fyrir.

En málið gengur nú til nefndar. Eins og ég greindi frá í ræðu minni um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum munum við í nefndinni leggja kapp á að geta unnið þessi mál sem best og munum hefja þá vinnu strax í næstu viku og meta. En ég vona að á meðan við erum að fjalla um þetta frumvarp komi það mál sem við bíðum eftir, fjármögnunarþátturinn, því að það skiptir auðvitað sköpum til að markmið hæstv. ráðherra nái fram að ganga, sem er að auka fjölbreytni á húsnæðismarkaði og tryggja húsnæðisöryggi allra landsmanna.