144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

dómstólar.

669. mál
[19:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998. Í frumvarpinu er lagt til að dómurum við Hæstarétt Íslands verði fjölgað tímabundið úr níu í tíu frá og með 1. september 2015.

Samkvæmt lögum um dómstóla skal fjöldi dómara við Hæstarétt Íslands vera níu. Vegna álags á Hæstarétt í kjölfar bankahrunsins var lögum um dómstóla breytt árið 2011 og hæstaréttardómurum með því fjölgað tímabundið um þrjá. Það var gert með þeim hætti að ekki yrði skipað í þau embætti dómara við réttinn sem losnuðu eftir 1. janúar 2013 uns fjöldi dómara yrði aftur orðinn níu. Í febrúar 2014 var því marki náð og hafa dómarar við Hæstarétt verið níu síðan þá.

Álag á Hæstarétt er hins vegar enn þá mjög mikið sökum málafjölda sem og þess að mál sem koma til meðferðar hjá réttinum eru þyngri en áður. Í ársskýrslu Hæstaréttar fyrir árið 2014 kemur fram að það ár hafi málum fjölgað frá árinu 2013. Þar kemur jafnframt fram að ef tekið er mið af fjölda mála á árunum 2008–2013 hafi málum fjölgað árið 2014 um 111, þ.e. 13%. Þá hefur kærum í einkamálum fjölgað verulega samkvæmt sama mælikvarða, þ.e. um 96 mál sem jafngildir 33% fjölgun.

Spár um fækkun mála hafa því ekki gengið eftir. Þá hefur heimild Hæstaréttar sem samþykkt var með lögum nr. 138/2012 og gilt hefur frá 1. janúar 2013 til að setja varadómara til að taka sæti í einstökum málum ekki fyllilega náð tilgangi sínum. Sú heimild er tímabundin og fellur úr gildi í árslok 2015.

Það er mat Hæstaréttar Íslands að nauðsynlegt sé að fjölga dómurum við réttinn tímabundið um einn og telur ráðuneytið rétt að bregðast við þeirri ábendingu. Lagt er til að sami háttur verði hafður á og áður þannig að ekki verði skipað í þær stöður dómara við Hæstarétt Íslands sem losna eftir 31. desember 2016 þar til fjöldi dómara verður aftur orðinn níu.

Vegna þess mikla álags sem nú er á Hæstarétti Íslands og mikilvægis þess að málshraða sé haldið í góðu horfi tel ég rétt að leggja það til að hæstaréttardómurum verði í samræmi við óskir Hæstaréttar fjölgað um einn og legg ég það til við virðulegt Alþingi.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar og til 2. umr.