144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

dómstólar.

669. mál
[19:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna erum við að opna nýja og spennandi umræðu sem er um það hvort við séum almennt meðmælt sértækum aðgerðum til að leiðrétta kynjamun í stofnunum samfélagsins. Mig langar að freista þess að biðja hæstv. ráðherra að deila með mér vangaveltum sínum hvað þetta varðar vegna þess að í rannsóknarskýrslu Alþingis eftir bankahrunið var sérstaklega fjallað um þann vanda að ákvarðanataka væri of einkynja. Þá erum við að tala um í raun alla þætti hins þrískipta ríkisvalds, þingið, framkvæmdarvaldið og dómsvaldið. Dómsvaldið er mjög mikill eftirbátur. Á Alþingi eru núna rétt 40% alþingismanna konur og við kræktum okkur upp fyrir 40% þegar hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir tók sæti Árna Þórs Sigurðssonar alþingismanns þegar hann hætti hér störfum.

Framkvæmdarvaldið hefur að mörgu leyti stigið mikilvæg skref. Á síðasta kjörtímabili var jafnt kynjahlutfall í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna þegar það var gert upp. Ég hef orðið þess áskynja að kynjasjónarmið skipa sífellt ríkari sess hjá þeim flokkum sem hafa kannski verið hikandi við að beita kvótum í sínum prófkjörum eða við val á lista og hafa ekki notað fléttulistanálganir eða neitt slíkt. Það er þó þannig að bæði þingið og framkvæmdarvaldið sýna meiri þunga í þessa veru, bæði að því er varðar hugmyndafræðina og umræðuna en ekki síður það sem síðan er sýnilegt. Þess vegna finnst mér afar mikilvægt þegar dómsvaldið er annars vegar sem er þriðja grein ríkisvaldsins að þar gætum við líka að því að taka hiklaus skref í þessu efni til að tryggja að kynjaójafnvægi hamli að minnsta kosti ekki því að við stígum skref inn í heilbrigðara samfélag eftir hrunið.