144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[20:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerðina fyrir málinu. Ég held að hér sé um mikilvægt framfaramál að ræða og margar þarfar tillögur í málinu sem sérstaklega lúta meðal annars að réttindum fatlaðs fólks.

Ég vil spyrja ráðherrann um þá sem eru sviptir varanlega núna. Hversu stór hópur er þetta? Hversu margir einstaklingar eru það sem koma til endurmats, og sömuleiðis, vegna þess að hér er að þessu leytinu til gengið lengra en menn gerðu í Noregi í að heimila ekki varanlega sviptingu, hvaða fyrirmyndir við höfum í því, hverjir aðrir hafa gengið svo langt og hvaða reynslu er að finna þar?

Hins vegar vil ég inna ráðherrann eftir því sem hún nefnir fullgildingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er verkefni sem hefur dregist sannarlega úr hömlu og uppi hafa verið ólík sjónarmið um með hvaða hætti eigi að standa að því. Annars vegar það að setja eigi nauðsynlega löggjöf og breyta þeirri löggjöf sem breyta þarf og fullgilda síðan sáttmálann með þingsályktunartillögu. Hins vegar hefur það verið krafa Öryrkjabandalagsins, og ég hygg fleiri hagsmunaaðila, að lögfesta eigi sáttmálann eins og gert var við barnasáttmálann og mannréttindasáttmála Evrópu. Ég spyr því ráðherrann hvort ríkisstjórnin hafi tekið afstöðu til þess hvora leiðina skuli fara og hvort félagsmálaráðherra og innanríkisráðherra séu með sömu afstöðu til þess hvora leiðina skuli fara.