144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[20:03]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá vandi sem hefur birst í meðförum þessa viðkvæma málaflokks er að vissu leyti sá að halda utan um þá sem eru sviptir lögræði, og það er ekki síst af þeirri ástæðu sem það er mat okkar að nauðsynlegt sé að Þjóðskrá Íslands sé falið það verkefni. Ég er ekki með það á takteinum hversu margir einstaklingar þetta eru. Ég get vonandi aflað þeirra upplýsinga en ég hef þær ekki og hef því ekki upplýsingar um það á þessu stigi. En ég held satt að segja að mikil framför verði í því fólgin að flytja þetta til stofnunar sem hefur betur færi á því að halda utan um þessi gögn, þótt ég vilji taka fram að það sé mjög vel haldið utan um þetta í ráðuneytinu, en ég er bara ekki með það hér á takteinum.

Varðandi þær fyrirmyndir sem hér hafa verið til grundvallar, og eins og ég sagði í ræðu minni, ganga Norðmenn ekki svona langt. Það var hins vegar mjög mikið í því samráðsferli og þeirri vinnu allri sem hefur verið frá 2012 — þá voru mjög rík sjónarmið uppi um það að við ættum að ganga lengra og það er ekki síst á grundvelli þeirra sjónarmiða sem innlendir fræðimenn hafa lagt fram í málinu sem það er gert.

Varðandi síðan samninginn um réttindi fatlaðs fólks er það svo að hjá okkur í innanríkisráðuneytinu er eitt atriði enn á eftir, og það er það sem varðar eftirlit með framkvæmd samningsins. Það er nokkuð sem við þurfum að ljúka við líka. Framlagning þessa frumvarps er mjög mikilvægt skref af hálfu innanríkisráðuneytisins til að ljúka málinu. Síðan höfum við hugsað okkur að hér væri um fullgildingu að ræða en ekki lagasetningu á samningnum sjálfum. En það stendur enn þá upp á okkur hvað varðar eftirlitið en síðan er meginþungi vinnunnar sem eftir er á forræði velferðarráðuneytisins.