144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[20:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og er sammála því að þetta er mikilvægt skref til að fullgilda megi eða lögfesta sáttmálann um réttindi fatlaðs fólks. En ég spyr hana eftir sem áður: Er það afstaða ríkisstjórnarinnar að fullgilda eigi sáttmálann en ekki að lögfesta hann, eins og gert var með barnasáttmálann og mannréttindasáttmála Evrópu? Og er eining hjá innanríkisráðherranum og félagsmálaráðherra um þá nálgun að málinu?

Ég skil síðan hæstv. ráðherra þannig að við séum hér að ganga lengra í því en aðrir, þ.e. við höfum ekki nein fordæmi um það að ekki sé heimiluð varanleg forræðissvipting, og ég er ekki að kvarta undan því, það skal síst standa á mér við að vera metnaðarfullur í þeim kröfum sem menn gera í þessum málaflokki, en ég vildi bara vera viss um að það væri réttur skilningur.

Að síðustu langar mig að inna ráðherra eftir því af því að hún gat þess að hér væri byggt á hluta af tillögum starfshópsins. Það var ekki gott að átta sig á því hvort það væri vegna þess að einhver annar hluti tillagna hópsins hefði lotið að öðrum þáttum eða öðru málefni eða kæmi að öðru frumvarpi, eða hvort það hafi í einhverjum atriðum af hálfu ráðherrans og ráðuneytisins verið vikið frá þeim tillögum sem frá hópnum komu. Ef svo er þá þætti mér mikilvægt í upphafi umræðunnar að ráðherrann gerði grein fyrir því ef í einhverju atriði var ekki farið að tillögum hópsins og þá með hvaða rökum það var gert.