144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[20:07]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki hefur verið fjallað um það svo mér sé kunnugt um í núverandi ríkisstjórn eða tekið á því með formlegum hætti hvort farin skyldi fullgildingarleið eða lögfestingarleið. Hins vegar var mörkuð sú stefna áður að fara fullgildingarleið og eftir því hefur verið unnið í innanríkisráðuneytinu og eftir því erum við að vinna í ráðuneytinu. Önnur sjónarmið hafa ekki verið uppi af okkar hálfu hvað það varðar. Í mínum huga er meginatriðið að við komum þessu verki frá og það ríður á, ég tek undir með hv. þingmanni að þetta hefur tekið langan tíma en þetta hefur reynst flókið. Nú er bara kominn tími til þess að reyna að ljúka við málið. Eins og hér hefur komið fram eru umtalsverð verkefni sem heyra undir annað ráðuneyti og það er mikilvægt að þau komist áfram líka.

Það er ekki fordæmalaust að gengið sé svona langt eins og við erum að gera, þótt ég hafi verið að nefna Norðmenn sem ganga skemur, af því að menn horfðu dálítið til Noregs. Ég þyrfti líka að fá tækifæri til þess að fara yfir það nákvæmlega en ég veit að það er ekki fordæmalaust. En við töldum í ráðuneytinu við og eftir þetta samráðsferli að við hefðum fullar efnislegar ástæður til að ganga nokkuð langt í þessu. Þetta er það viðkvæmt mál að mín skoðun er sú að þarna verðum við að fara alveg sérstaklega gætilega gagnvart réttindum fólks.

Varðandi frávik er það tvennt, ég held að það sé tvennt. Annars vegar er það umdeilt atriði hvort fjölskyldan eigi að hafa nokkra aðkomu að málinu, það er umdeilt atriði. Og það stóð mjög mikið í mér þegar við vorum að ganga frá málinu hvernig ætti að ganga frá því til þingsins. Að mínu áliti var varfærið að hafa þessa leið en á sama tíma geri ég mér fulla grein fyrir því að þetta er gríðarlega erfitt fyrir þær fjölskyldur sem með þetta fara. Þetta er það ákvæði sem ég tel að nefndin þurfi að fara mjög rækilega yfir. En þetta var niðurstaða okkar í ráðuneytinu að leggja þetta fram svona.