144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[20:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna með þessu máli sem er sannarlega allt til bóta og engar efasemdir hjá þeirri sem hér stendur um það.

Mig langar til að spyrja vegna þess að hæstv. ráðherra nefnir sérstaklega þann þátt sem varðar aðkomu fjölskyldunnar að þessum þungbæru málum og telur að nefndin þurfi að horfa sérstaklega til. Þá langar mig að biðja hæstv. ráðherra að reifa með hvaða hætti væri hægt að nálgast þetta öðruvísi en er lagt til í frumvarpinu. Hver eru álitamálin eða á hvaða skala gæti nefndin verið að vinna að því er varðar þennan þátt sérstaklega? Gott væri líka ef ráðherra vildi varpa ljósi á önnur álitamál sem hún telur að hafi verið tekin afstaða til. Eins og ég skil hana þá telur hún mikilvægt að þingið skoði þetta í þaula.

Mig langar síðan að spyrja um umsagnarferlið sem kemur fram í ágætum kafla um samráð. Þar kemur fram að frumvarpið hafi verið sett í opið umsagnarferli í samræmi við verklag ráðuneytisins og að tíu umsagnir hafi borist frá einstaklingum, hagsmunaaðilum o.s.frv. og að athugasemdir hafi verið yfirfarnar og eftir atvikum gerðar breytingar á frumvarpinu. Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hverjar voru þær breytingar og hvaða athugasemdir voru það sem voru þyngstar í þá veru að hafa áhrif á endanlegt frumvarp sem hæstv. ráðherra mælir hér fyrir?

Loks langar mig að spyrja ráðherrann, í þriðja lagi. Hún talar um mikilvægi þess að það sé ráðgjöf og stuðningur í kjölfar nauðungarvistunar. Þá velti ég fyrir mér hvort þær 6 milljónir á ári sem koma fram í (Forseti hringir.) kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins séu nægilegar til þess að dekka þessa breytingu á framkvæmdinni í samræmi við lögin.