144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[20:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tæpti aðeins á þessu í ræðu minni og var að reyna að rifja þetta upp og til samans getum við örugglega rifjað það nokkuð vel upp, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Það er alveg hárrétt, og mig rak minni til þess, að þetta kom á borð ríkisstjórnar oftar en einu sinni og við fylgdumst með framvindu þessara mála, sem var gott og það var mikill metnaður í því að koma til móts við og losna við athugasemdir varðandi framkvæmd þessara mála af okkar hálfu. Að sjálfsögðu er það ekki eitthvað sem við viljum sitja uppi með, að verið sé að gera athugasemdir við að þau mál séu ekki í nógu góðu lagi hjá okkur, og allra síst viljum við fá slíkt ámæli, a.m.k. sum hver, frá Evrópuráðinu og samningum á vegum þess á sviði mannréttindamála.

Það er mjög líklegt að sú umfjöllun, sem varð talsverð, og hreyfing sem komst á þessi mál með fundarhaldi, fjölmiðlaumfjöllun og öðru slíku hafi átt sinn þátt í því að fólki varð betur ljóst að það gat farið í þennan farveg með málin og það er mjög vel. Kannski hafa félagsmálayfirvöld líka sjálf að einhverju leyti mætt þeirri umræðu, sem hefur oft komið upp, um hversu erfitt það sé fyrir aðstandendurna að standa í þessu sjálfir, og einhvern veginn opnað dyr sínar meira fyrir því að taka málin að sér og það er mjög vel.

Ég held að við eigum að gleðjast yfir því að þetta sé þó komið hingað. Ég tek undir það sem kom fram í umræðunni að það væri vissulega margt verr við tímann gert hér í vor en að reyna að klára þetta mál.