144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

vopnalög.

673. mál
[21:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerðina fyrir málinu. Það er kunnara en frá þurfi að segja að við í Samfylkingunni erum þess mjög fýsandi að innleiða evrópskt regluverk í okkar góða landi og skerpa á þáttum í vopnalögunum. Ég vildi spyrja ráðherrann um einkvæð auðkenni, hvað það merkir nákvæmlega, og sömuleiðis hvort þessi einkvæðu auðkenni eigi þá við þegar sprengiefni er fyllt á bíla, eins og ráðherrann gat um.

Það var kannski ekki efni tilskipunarinnar sjálfrar sem varð til þess að ég óskaði eftir andsvari við ráðherrann. Það er því miður kunnara en frá þurfi að segja að hér höfum við farið í gegnum ákaflega vonda atburðarás í tengslum við vopnaburð lögreglu og Landhelgisgæslu í landinu, innkaupamál eða gjafamál frá öðrum löndum sem hefur orðið okkur hneisa, bæði innan lands og erlendis, og algerlega óboðlegan ramma um öll þau mál sem hafa komið upp fyrr í vetur. Ég vildi nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvort unnið væri að einhvers konar endurskoðun á þessari löggjöf í heild sinni, ekki bara innleiðingu á þessari einstöku tilskipun heldur hvort verið væri að styrkja lagarammann og verklagið í kringum þessi mál almennt á vegum ráðuneytisins.