144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

vopnalög.

673. mál
[21:34]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið er jákvætt, verið er að vinna að heildarendurskoðun á vopnalögum. Ég taldi hins vegar ekki hægt, úr því að við erum komin á það stig í innleiðingu á þessum gerðum að hafa fengið á okkur dóm vegna þess síðastliðið haust, að bíða með að koma með þennan þátt málsins þar til heildarendurskoðun lyki á vopnalögunum og kaus því að kljúfa málið í tvennt og koma fyrst með innleiðingarlöggjöfina og síðan verður áfram unnið að endurskoðun vopnalöggjafarinnar sem kemur svo í kjölfarið.

Ég vil sérstaklega þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja mig um hvað einkvæðar merkingar eru. Minn skilningur er sá að einkvæðar merkingar séu þegar um er að ræða einn bókstaf eða tölustaf í merkingarskyni á vörur. Ég þori ekki að hætta mér miklu lengra út í það mál en það eru náttúrlega strangar reglur um merkingar. Minn skilningur er að verið sé að tala um þetta á þann hátt.

Ég get ekki lofað því en ég á von á því að það fari að styttast í að heildarendurskoðuninni ljúki og þá mun það frumvarp birtast í þinginu.