144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

Samgöngustofa og loftferðir.

674. mál
[21:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er þessi gjaldtökulagfæring sjálfsagt mál. Það hefur tekist svona til þegar þetta var skrúfað saman í sameiningunni að heimildir að þessu leyti hafa fallið niður.

Það sem vakti athygli mína voru þessar víðtæku reglugerðarheimildir, að hér virðist vera um að ræða að innleiða mikið regluverk á sviði Siglingaöryggisstofnunar Evrópu og síðan aftur á sviði Flugöryggisstofnunar Evrópu. Mér leikur forvitni á að vita: Eru þetta fullnægjandi innleiðingarheimildir að þessu leyti til og er það alveg klárt að reglugerðir dugi til þess að gera þetta? Nú hefur sumt í þessum flugstofnunum til dæmis verið snúið gagnvart framsali valds og annað í þeim dúr. Ég reikna með að ekkert slíkt sé hér á ferðinni úr því menn telja að þetta sé hægt að gera með einfaldri heimild til reglusetningar. Og þá kannski líka: Eru þetta þá tilskipanir sem búnar eru að fara sinn feril í gegnum utanríkismálanefnd og þær hafi sem sagt verið blessaðar á grundvelli ákvarðana í sameiginlegu EES-nefndinni og allt þar fram eftir götunum?