144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

Samgöngustofa og loftferðir.

674. mál
[22:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér er fullkunnugt um að það er mikið regluverk sem oft tengist þessum málum, bæði siglingaöryggismálum og flugöryggismálum. Ég er ekki að mæla með því og væri sjálfsagt að æra óstöðugan að allar tæknilegar reglur í þessum efnum væru, ég tala nú ekki um settar í lög, hvað þá að fjalla með viðamiklum hætti um einhverjar tæknilegar breytingar sem kunna að verða á þessu frá einum mánuði eða ári til annars.

En það sem ég staldraði engu að síður við og vil hafa nefnt hér, ég tek orð ráðherra fullgild, er að hér er auðvitað um mjög opna heimild að ræða. Það er í raun og veru sagt: „Ráðherra er einnig heimilt að setja reglugerð um innleiðingu EES-gerða sem varða verkefni á sviði Siglingaöryggisstofnunar Evrópu og stofnuninni hafa verið falin á grundvelli stofngerða hennar, …“ Þetta er almenn heimild til þess að innleiða tilskipanir sem varða verkefni á þessu sviði. Hið sama gildir í raun um Flugöryggisstofnunina. Hér segir: „Ráðherra er heimilt að setja reglugerð sem felur í sér innleiðingu EES-gerða sem varða verkefni á sviði Flugöryggisstofnunar Evrópu …“ — sem væntanlega er opin heimild inn í framtíðina, að þau verkefni sem þeirri stofnun verða falin, er ráðherra heimilt að innleiða eða heimilt er að taka þau upp og innleiða í okkar rétt á grundvelli þessara reglugerðarheimilda.