144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lyfjalög.

645. mál
[22:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, lyf geta verið hættuleg vara, eins og hv. þingmaður segir, en þau eru líka afskaplega gagnleg vara. Þess vegna ber að umgangast þau þannig. Ég leyfi mér að fullyrða að lyfjamarkaðurinn hér á Íslandi; Lyfjastofnun, lyfjagreiðslunefnd og þeir sem höndla með lyf úti á markaði, umgangist þau af mikilli ábyrgð og skyldu. Upplýsingarnar um lyfin, aukaverkanir og verkanir þeirra eru í fylgiseðlum, eins og hér er rætt um, þegar þau eru rétt yfir borðin. Sumt af þessu er hægt að kaupa án þess að menn hafi ýkjamiklar upplýsingar um lyfin, þau eru rétt yfir borðið sem lyf.

Almenna reglan í þessum efnum, eins og við erum að leiða hér í lög, þ.e. almennt regluverk, er að auglýsingar í Evrópu á lyfjum eru heimilar. Ég held að sú mismunun sem tíðkast hér á landi sé ákveðinn tvískinnungur, að leyfa auglýsingu í tímaritum eða dagblöðum en banna þær í sjónvarpsauglýsingum. Ég held að við eigum að gera miklu stífari kröfur, eins og raunar er verið að gera í þessu frumvarpi, og styrkja stöðu Lyfjastofnunar til eftirlitsins, að leiða hér og skýra hlutverk og skyldur aðila varðandi lyfjamálin og sömuleiðis að greiða fyrir og auka skilvirkni í regluverkinu um þessi mál. Ég held að árangurinn liggi fyrst og fremst í því að við náum að bæta okkur á þeim sviðum en ég tel að auglýsingarnar einar og sér og sú jöfnun sem hér hefur verið gerð að umtalsefni skilji ekki á milli stórra mála í þessum efnum.