144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Árið 2003 sameinuðust Vélskólinn, sem var stofnaður 1915, og Stýrimannaskólinn, sem var stofnaður 1890, undir Fjöltækniskólanum. Menntafélagið ehf. fékk það hlutverk að reka skólann en eigendur Menntafélagsins ehf. eru samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins, Samorka og Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur. Síðan árið 2008 sameinaðist Iðnskólinn í Reykjavík, sem stofnaður var 1904, Fjöltækniskólanum og úr varð Tækniskólinn og Menntafélagið ehf. fékk það hlutverk að reka nýja Tækniskólann.

Þegar þáverandi menntamálaráðherra var spurður út í þessa hugsanlegu sameiningu snemma á árinu 2007 sagði hún meðal annars frá því að það þyrfti ekki lagabreytingu til að sameina skólana og þess vegna væri ekki ástæða til að fara frekar yfir málið á þingi. Og nú á að halda áfram á þeirri leið að útvista rekstri starfsmenntaskóla. Planið er að 1. ágúst verði Tækniskólinn og Iðnskólinn í Hafnarfirði sameinaðir og Menntafélagið ehf. fái það verkefni að reka móðurskóla starfsmenntunar í landinu með á þriðja þúsund nemendur.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að hugað sé að frekari sameiningum og kerfisbreytingum, meðal annars í menntamálum. Við höfum frétt af breytingum varðandi Bifröst og landbúnaðarháskólana og að það sé verið að ræða sameiningar á Norðurlandi. Mér finnst að það sé algjörlega óásættanlegt að framkvæmdarvaldið sé ekki skyldugt til að koma og ræða breytingar á menntastefnu sem slíkrar þegar það hefur áhrif á aðgengi að námi, námsframboð, (Forseti hringir.) starfsmannahald og jafnvel kostnað nemenda.