144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins gera að umtalsefni frétt í Ríkisútvarpinu í gær þar sem haldið var fram að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ætli að afla gagna um tengsl menntamálaráðherra við stjórnendur Orku Energy og taka málið fyrir í næstu viku. Ekki verður annað séð en að þessi frétt sé höfð eftir hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, sem sat þennan fund sem varamaður í gær, en ég þarf að leiðrétta þessa frétt. Hún er einfaldlega röng.

Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, leiðréttir hana að vísu á mbl.is þar sem fram kemur í aðalatriðum það rétta í málinu, sem er það að fram kom tillaga um að nefndin tæki þetta mál til athugunar frá minni hluta nefndarinnar. Engin ákvörðun var tekin um það hvort slíkt skyldi gera enda eftir að athuga í fyrsta lagi hvort málið heyri undir nefndina yfir höfuð og þótt svo væri hvort ástæða væri til þess, með hliðsjón af því sem liggur fyrir, að taka málið fyrir. Eftir sem áður geta þingmenn fjallað um málið hér í þingsal en það er nauðsynlegt að leiðrétta þennan misskilning.