144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir gerði það að umræðuefni hér að mikill fjöldi flóttamanna er á ferð og að reyna að komast til Evrópu, leggur líf sitt í hættu til að leita að betra lífi. Ég er sammála hv. þingmanni um að við Íslendingar eigum að taka þátt í því að veita einstaklingum von í þessari stöðu. Við verðum hins vegar að gera það eftir efnum og ástæðum. Af því að hér var vikið að því að við ættum að fara sömu leið og Svíar og hleypa öllum inn þá vara ég við því, við verðum auðvitað að vera í stakk búin til að veita þeim sem hingað koma aðstoð og gera það eftir efnum og ástæðum. Það er hægt að fara ýmsar leiðir í því efni, til dæmis er hægt að leita leiða til þess að hingað geti komið munaðarlaus börn. Við getum tekið slíkan hóp, en það er algjörlega ljóst að það er ekki rétt að opna á frjálst flæði hingað inn án þess að hér séu aðstæður til að skapa fólki skilyrði til búsetu, til umönnunar og þeirrar aðstoðar sem nauðsynleg. Ég tel ekki rétt að gera það. Við eigum að hjálpa fólki og við eigum að vera í stakk búin til að hjálpa þeim sem hingað koma.

En aðeins að málefnum Landeyjahafnar vegna þess að hér var kallað eftir því að koma því á hreint hver bæri ábyrgð á þeirri framkvæmd. Ég er ein af þeim sem bera ábyrgð á þeirri framkvæmd. Ég er stolt af henni, ég sat í þeim stýrihópi sem tók ákvörðun um það með hvaða hætti farið yrði í þá höfn. Verkinu er ekki lokið. Það var tvíþætt, annars vegar að smíða höfnina og hins vegar skip sem ætti við. Núverandi Herjólfur er ekki ætlaður fyrir þessa höfn, það hefur legið fyrir frá upphafi. Við þurfum að klára verkið og að því er unnið í innanríkisráðuneytinu.