144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Á morgun fara 10 þúsund félagar í Starfsgreinasambandi Íslands í verkfall, en í framhaldinu taka við ótímabundin verkföll. Ótímabundið verkfall hefst 26. maí en verkföll verða dag og dag í maí þangað til sá dagur rennur upp.

Það fara engir í verkföll að gamni sínu, við vitum það, það er full alvara í því. Menn fara í verkföll vegna þess að það er neyðarbrauð að ganga þá braut og kostar þá sem fara í verkföll líka háar fjárhæðir og samfélagið allt.

Gallup gerði könnun sem sýnir að 91,6% landsmanna er hlynnt kröfum Starfsgreinasambandsins um að lágmarkslaun verði 300 þús. kr. miðað við fullt starf. Það er auðvitað mjög ánægjulegt fyrir þennan hóp launamanna að fá slíkan stuðning í upphafi en þeir fara í þungbærar verkfallsaðgerðir í framhaldinu ef ekki næst að semja. Það eru vissulega sterk skilaboð til Samtaka atvinnulífsins um að mæta þessum sanngjörnu kröfum. Mér finnst það dapurlegt þegar hv. þingmenn hér í þingsal hafa ýjað að því að endurskoða þurfi verkfallsréttinn, þetta eina vopn sem launamenn hafa til að reyna að ná fram bættum kjörum. Mér finnst að þingmenn sem og aðrir verði að hlýða á þær raddir og þann stuðning sem kemur frá þjóðfélaginu öllu, að þjóðfélagið sættir sig ekki við að almenningur í landinu búi hér við lúsarlaun (Forseti hringir.) og krefst þess að fólk búi við mannsæmandi kjör.