144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni þau andstæðu sjónarmið sem koma fram hjá ríkisstjórninni varðandi það hvað raunverulega er að gerast í málefnum verðtryggingar og afnáms hennar eða ekki.

Í fyrirspurnatíma á mánudaginn skoraði hæstv. forsætisráðherra á okkur að fara inn á google.com og reyna að finna það út þar. Þar væru aldeilis tíðindi og við gætum fundið hið sanna í málinu. Ég gerði það og þar er ekkert að finna um það að ríkisstjórnin sé að fara að afnema verðtryggingu. Það eina sem þar er að finna er niðurstaða nefndar sem ríkisstjórnin skipaði þar sem kveðið er á um að banna eigi einn ákveðinn lánaflokk, þ.e. 40 ára verðtryggð lán. Sú nefnd skilaði af sér í janúar 2014 og þar er líka kveðið á um að 1. janúar 2015 eigi sú aðgerð að koma til framkvæmda, þ.e. bann við 40 ára lánum.

Annað sem við finnum líka á netinu er að í maí 2014 samþykkti ríkisstjórnin ákveðna aðgerðaáætlun og það sem þar er að finna er nákvæmlega það sama, þ.e. undirbúningur að því að banna ákveðinn lánaflokk, 40 ára verðtryggð lán.

Er eitthvað þarna sem segir okkur eitthvað um það að þessi ríkisstjórn ætli að afnema verðtryggingu? Nei. Með öðrum orðum: Sá farsi sem hér hefur verið viðhafður af hæstv. forsætisráðherra afhjúpast með því að við gerum það sem hann segir okkur að gera, fara inn á netið og skoða málið og fara yfir þær ákvarðanir sem teknar hafa verið í málinu.

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra má eiga það að hann kemur heiðarlega fram í þessu máli, segir þjóðinni satt um að engin verðtrygging verði afnumin á þessu kjörtímabili. Það gerir Framsóknarflokkurinn hins vegar ekki og heldur því enn fram úr þessum ræðustól að afnema eigi verðtrygginguna. Framsóknarflokkurinn skuldar þjóðinni svör.