144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

703. mál
[15:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna orðum hæstv. ráðherra. Hins vegar er alveg ljóst að orkufyrirtækin hafa mikinn áhuga á að bæta við virkjunum á miðhálendinu. Ég held að 15 hugmyndir séu um virkjanir á miðhálendinu þannig að ég fagna því ef hæstv. forsætisráðherra metur það svo að ekki sé mikill pólitískur ágreiningur um friðun og þjóðgarð á miðhálendinu. Þá ætla ég að líta á hæstv. forsætisráðherra sem bandamann minn í því máli þangað til annað kemur í ljós, því að það er alveg ljóst að margir hafa áhuga á að nýta miðhálendið til ýmissa annarra verka en að vernda það. Ég held, eins og ég sagði áðan, að við eigum þar gríðarlega auðlind og hana nýtum við best til framtíðar með því að friða hana. Það er besta nýtingin á þeim ósnortnu víðernum sem við eigum.