144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

636. mál
[16:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, eins og tiltekið er í kostnaðarmatinu með frumvarpinu er þar verið að ræða að gert sé ráð fyrir því að kostnaður sem kynni að falla til á næsta ári vegna þessa sé um 39,5 millj. kr. sem sundurliðast í grófum dráttum þannig varðandi starfsmannahald að gert er ráð fyrir tveimur starfsmönnum hjá Sjúkratryggingum Íslands og einu stöðugildi hjá landlæknisembættinu, og síðan að hluta til kostnaður hjá Landspítalanum, til þess að vinna að framkvæmd frumvarpsins ef það yrði að lögum.

Það er alveg ljóst, eins og kemur fram þarna, að það þarf að búa til reglugerð þar sem fyrirmæli eru um hvernig að þessari upplýsingagjöf skuli staðið, hvernig eigi að svara beiðnum um fyrirframsamþykkið. Það er ljóst að landlæknisembættið þarf líka að gera ákveðnar kröfur varðandi gæði og öryggi o.s.frv. Þetta er vinna sem er á frumstigi máls þannig að við erum ekki komin neitt áleiðis með útfærslu á því hvernig við kynnum að vinna með lagabálkinn. Við vildum einfaldlega sjá til hvernig málinu reiddi af hér í þinginu áður en við legðum að fullu af stað við reglugerðarsmíðina.