144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[16:31]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hérna upp af því að þetta frumvarp vekur upp stórar spurningar hjá mér. Eftir að hafa velt því fyrir mér í svolítið langan tíma þá tel ég enn vera vankanta á því þó svo að reynt hafi verið að girða vel fyrir þá.

Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með að hér er einungis talað um holdanautgripi og vil taka það skýrt fram að hér er einungis átt við erfðaefni þeirra og ég mun því reyna að tala einungis út frá því en ekki öðru frumvarpi sem talað var um að leggja fram um erfðaefni mjólkurkúa.

Ég vil benda hæstv. ráðherra á að hann þarf að leggja ríka áherslu á að setja skilyrði sem lúta að rannsókn erfðaefnis og dýra sem vaxið hafa af innfluttu erfðaefninu á einangrunartíma og heilbrigðisástandi og aðbúnaði á þeim býlum sem óska eftir því að fá að flytja inn erfðaefnið. Einnig að innflytjandi beri raunkostnað af viðbótareftirliti.

Hér kemur fram að hlutaðeigandi hagsmunasamtök geti komið með umsagnir um málið. Hvað með þá sem eru að koma inn í greinina og eru ekki komnir í hagsmunasamtök? Þarna er ekki liðkað fyrir nýliðun. Hvað með þá sem standa utan samtakanna? Það þarf að taka tillit til breytinga og nýrrar uppbyggingar félagskerfis bænda.

Starfshópur sem starfaði um eflingu nautakjötsframleiðslu hér á landi sagði að talsverðir möguleikar væru til eflingar nautakjötsframleiðslu hér á landi og að innflutningur nýs erfðaefnis úr holdanautgripum væri þar lykilatriði. Hópur sem skipaður var í framhaldi til að koma með tillögur um eflingu nautakjötsframleiðslu sagði að það þyrfti að gera ítarlega áhættugreiningu. Niðurstaða greiningarinnar var sú að litlar líkur væru á því að smitefni bærust hingað til lands.

Alltaf þegar tiplað er svona á tánum í kringum þetta og sagt að litlar líkur séu á hinu og þessu, eru samt sem áður enn þá fyrir hendi líkur og það eru þær líkur sem hræða mig. Öllum innflutningi getur fylgt áhætta og smitefni getur borist með erfðaefni. Ef smitefni bærist til landsins gæti það haft miklar afleiðingar. Það var líka niðurstaða hópsins sem fór með áhættumatið. Í frumvarpinu er því lýst yfir að smitefni sem bærist hingað gæti haft miklar afleiðingar fyrir íslenskan landbúnað en eftir þá yfirlýsingu er einmitt talað um sérstöðu íslenskra búfjárstofna og góða sjúkdómsstöðu þeirra.

Með frumvarpi þessu er lagt til að ferlið við innflutning á erfðaefni nautgripa verði einfaldað. Ég er mjög hrædd við það ef sú einföldun á að fela í sér að stytta ferlið sem erfðaefnið á að fara í gegnum, þ.e. rannsóknir, bið og annað. En þó svo að nautakjötsframleiðsla á Íslandi sé að stórum hluta stunduð sem hliðarbúgrein með mjólkurframleiðslu er ástandið í nautakjötsframleiðslu á Íslandi bara alls ekki gott í dag, og það er ekkert einungis út af skorti á einhverju erfðaefni. Ástandið í dag er þannig, ef við tölum bara hreint út, að ég veit til þess að bændur eru að taka nautkálfa þegar þeir fæðast, leiða þá út fyrir fjósvegg og skjóta þá og urða, því að það er ódýrara en að ala þá.

Ástandið í nautakjötsframleiðslunni batnar í rauninni ekki þó svo að erfðaefnið komi. Við erum enn þá með sama kerfi. Fyrir ekki svo löngu var talað um að innlend framleiðslu mjólkur uppfyllti ekki eftirspurn á markaði og í frumvarpinu er talað um að framleiðsla á innlendu nautakjöti anni ekki eftirspurn á markaði. Þið hljótið að sjá hvað þessar setningar eru kunnuglegar. En á móti er umhverfið ekkert bætt í frumvarpinu. Framlegð bænda verður sú sama og framleiðslan borgar sig ekki. Við sem framleiðum nautakjöt þurfum enn þá að borga mikið fyrir fóður í gripina, við fáum enn þá sama afurðastöðvaverð fyrir kílóið. Því tel ég vankanta á þessu frumvarpi vera þá helsta að lítið annað er gert fyrir þá sem fara í nautakjötsframleiðslu en að gefa þeim erfðaefni stærri gripa. Þegar framleiðsla á mjólk annaði ekki eftirspurn var umhverfið bætt fyrir okkur. Við sem vorum í mjólkurframleiðslu fórum að fá meira borgað fyrir framleiðsluna, við gátum framleitt meira. En ég hef ekki rekist á að sú hlið sé uppfyllt í frumvarpinu, því aðstaðan er sú sama.

Í gegnum allt frumvarpið er ítrekað að mikilvægt sé að gæta smitsjúkdómahættu við innflutning erfðaefnis, þetta er sagt aftur og aftur, en á móti er einnig talað um að það þurfi að einfalda ferli við innflutning erfðaefnisins og miða við raunkostnað þannig að ekki sé farið fram úr hófi við rannsóknir.

Ég segi því: Ef ég sæi í frumvarpinu einhverjar úrbætur á aðstæðum framleiðenda þannig að þeir gætu séð hag í því að fara út í nautakjötsframleiðslu þá gæti ég staðið að hluta til með því, þó svo að ég vilji frekar standa með sjúkdómalausum landbúnaði hér á landi og ekki auka áhættu þar. Ég tel að meira þurfi til í þessu máli til að fá vænlega niðurstöðu og auka framleiðslu á nautakjöti. Fyrir mér ber frumvarpið með sér ákveðna hættu fyrir sjúkdómastöðu búfjárstofna og ég held að í því sé ekki mikill hvati til þess að fara út í nautakjötsframleiðslu. Það er þá spurning hvort þeir sem eru núna með holdanaut og berjast í bökkum við að halda úti einhverri nautakjötsframleiðslu séu þeir sem eigi síðan að taka við erfðaefninu og reyna að byggja upp.