144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[16:55]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Já, það er spurning hvort þetta geti haft þau áhrif að þrýstingur á innflutning á lifandi dýrum verði meiri. Ég veit að ég og hv. þingmaður deilum þeirri skoðun. Við erum andvígar slíkum innflutningi. Ég held að það sé ekki spurning að þrýstingur geti aukist í þeim efnum. Það er verið að opna ákveðna glufu í þessum efnum. Það getur jafnvel líka vakið umræðuna sem var hérna 2001, að flytja inn norska fósturvísa fyrir kúakynið.

Ég er svolítið beggja blands í þessu máli, hvað það þýðir í raun. Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði og get því ekki sagt hvort hægt sé að sjá í frumvarpinu að það styrki nýliðun í greininni. Auðvitað vildi maður gjarnan að eitthvað gerði það. Ég held að landbúnaðarkerfið sé því miður rétt eins og sjávarútvegskerfi okkar orðið allt of lokað og kvótasett og miklir erfiðleikar séu fyrir ungt fólk að hasla sér völl í greininni. Það vita allir sem þekkja til hve erfitt er fyrir ungt fólk að hefja störf í þessari grein, þó að það sé fullt áhuga og búið að mennta sig til þess að sinna störfum í landbúnaði, vegna þess að það er svo kostnaðarsamt.

Ég vildi gjarnan heyra viðhorf hv. þingmanns, ef hún kemur upp aftur, hvernig hún sæi fyrir sér að væri hægt að efla greinina (Forseti hringir.) og auka nýliðun í landbúnaði.