144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[17:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður ætti nú að lesa þær spurningar sem ég hef lagt fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra varðandi breytt skipulag á slátrun og vinnslu nautgripa á Íslandi. Ég er alveg sammála því að þar er nautakjötsframleiðslan langt á eftir sauðfjárræktinni. Við höfum séð það hvernig sauðfjárræktin hefur endurskipulagt sig á síðustu 15–20 árum og nautakjötsframleiðslan á eftir að ganga í gegnum sama þróunarferli. Ég tel því að á bak við þetta frumvarp og þær óskir sem liggja að baki því og koma náttúrlega ekki bara fullskapaðar úr kolli hæstv. ráðherra, heldur beinlínis úr hópi sem bændur höfðu frumkvæði að því að setja starfshópinn upp á sínum tíma, sýni að bændur telja að þarna séu möguleikar og tækifæri. Og þeir sem hafa áhuga á því að notfæra sér þessi nýju tækifæri sem frumvarpið opnar munu væntanlega vera búnir að gera sig klára, búnir að gera sig sjófæra, og ráðast ekki í siglinguna nema þeir hafi til þess aðstöðu.

Ég er ekki algjörlega sammála hv. þingmanni, þó að ég skilji hvað hún er að fara, að það þurfi endilega að vera hvati í frumvarpinu til að réttlæta samþykkt þess. Frumvarpið verður til með þeim hætti að settur er á stofn sérstakur hópur sem á beinlínis að vinna að því að finna tillögur til þess að efla nautgriparækt, og þetta er ein af þeim. Hópurinn hefði ekki orðið til nema vegna þess að bændurnir óskuðu eftir því sjálfir. Það er fullt af bændum sem telja að tækifæri séu í framtíðinni sem felast í því að búa til nautakjöt. Ég er í hópi þeirra sem telja að Ísland eigi að framleiða sem mest af matvælum og tel að það verði vaxandi markaður fyrir það í framtíðinni. (Forseti hringir.) Ég tel líka, og hef ýmislegt fyrir mér í því, t.d. skýrslur OECD, að íslenskt nautakjöt geti verið fullkomlega samkeppnishæft við verð nautakjöts frá öðrum löndum.