144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[17:21]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi segja að ég fagna framkomnu frumvarpi hæstv. landbúnaðarráðherra. Ég vil jafnframt vekja athygli á því að ég á kýr sem mögulega gætu notið góðs af þessu máli. Og vegna umræðu í samfélaginu og jafnvel í nefndum Alþingis um hæfi og vanhæfi alþingismanna (Gripið fram í.) vildi ég vekja athygli á því svo enginn velktist í vafa um það. Ég vísa þá til umræðu um málefni hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar, og vil þá um leið ítreka að í mínum huga er hv. þingmaður fullkomlega hæfur til að tala um það mál sem ég er að vísa til.

Það er kannski ekki hægt að halda stórar ræður um ástand í landbúnaðarmálum og horfur og stöður út frá þessu litla frumvarpi, en ég tek því fyrst og fremst sem viðleitni til þess að efla kjötframleiðslu og efla íslenskan landbúnað. Staðan er einfaldlega orðin þannig að við flytjum inn samkvæmt tölum sem birtar hafa verið allt að 20% eða um 20% af því kjöti sem við markaðssetjum og seljum hér á landi. Það hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna að við flytjum inn verulega mikið magn af nautakjöti. Við ættum þess vegna að horfa víðar yfir sviðið og ræða um eflingu kjötframleiðslu og landbúnaðar út frá þeim þáttum því að ég tel að það ætti að vera forgangsverkefni að slá undir landbúnaðinn þannig að við sitjum ekki endilega í þessari stöðu.

Ég hef mikla trú á holdanautabúskap og frumvarpið er hluti af því að efla hann. Ég hef oft velt fyrir mér hvers vegna við höfum ekki náð í raun og veru framar í þeim efnum því að við eigum víða um sveitir á Íslandi mikla landkosti til þess að eiga og halda stórar hjarðir og framleiða þessa tegund nautakjöts. Ég horfi oft á Meðalland og Skaftárhrepp sem ákjósanleg svæði til þess að halda stórar hjarðir. Nú skal ég viðurkenna að ég þekki ekki alla staðhætti þar en óneitanlega læðist að manni sú hugsun þegar maður keyrir um þær sveitir að þar liggi miklir möguleikar.

Ég ætla hins vegar ekkert að dylja það varðandi efni frumvarpsins að ég vil ganga mjög varlega fram í lagabreytingum og setningu á þeim meginreglum sem hér á að leiða í lög. Ég er íhaldsmaður í eðli mínu og íhaldssemi er oftast góð, varfærni er dyggð. Við höfum hörmulega reynslu af innflutningi, reyndar fyrst og fremst á lifandi dýrum, og okkur ber að fara varlega. Í skrifstofu gamla búnaðarmálastjóra, í skrifborði hans í Bændahöllinni, hafa til skamms tíma verið geymd vottorð sem áttu að sýna m.a. heilbrigði á kynbótagripum, hrútum, sem fluttir voru inn fyrir nokkrum áratugum síðan. Hvernig sú saga var öll og hvernig hún þróaðist er víti til að varast og til að læra af.

Vottorðin geta verið góð og gild og mikilvægt er að afla þeirra en það er ekki allt fengið með þeim. Þess vegna tek ég undir margt sem kom fram í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um varfærni, um skýrari leikreglur, um að skoða betur forsendur þarna á bak við. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vísaði til lagabreytinga sem voru gerðar hér á árum áður vegna innflutnings á erfðaefni eða sæði til þess að nota í svínarækt. Í mínum huga er grundvallarmunur á svínabúskap og holdanautabúskap. Svínabú eru í eðli sínu einangrunarstöðvar. Svínabú eru mjög lokuð bú. Þar er metnaður bænda í þeirri grein fyrir því að halda góðu heilbrigði í bústofnum sínum. Það gera þeir meðal annars með því að takmarka mjög umferð um bú sín, gæta ýtrasta hreinlætis og árvekni í þeim efnum og við þekkjum það þegar svínabú eru heimsótt að þar eru smitvarnir á mjög háu stigi. Í eðli sínu er því grundvallarmunur á holdanautabúskap og svínabúskap þannig að við þurfum að fara vandlega yfir það hvernig við útbúum einangrunarstöðvar og meðhöndlum innflutt erfðaefni. Það er þess vegna sem ég gerði almenna fyrirvara við frumvarpið í mínum þingflokki, svo að ég upplýsi það, því að það er margt í því sem við þurfum að skilja betur og ræða betur. Með því er ég ekki að segja að við eigum að loka að okkur og gera þetta ekki. Ég minni á að við höfum áður flutt inn erfðaefni til þess að bæta holdagripi og það hefur bara tekist vel, við skulum ekkert gleyma því. En það var líka staðið að því af mikilli vandvirkni.

Hér í umræðunni hefur verið rakið að bændur hafi lengi beðið eftir framlagningu þessa máls og lengi beðið úrbóta í því að fá að flytja inn erfðaefni. Þá vil ég minna á að sú leið var raunverulega alltaf fær fyrir bændur að sækja fram í þeim farvegi sem áður hafði verið notaður. Og hefði sá tími verið notaður sem búinn er að líða frá því að þessi umræða kom upp væru menn væntanlega komnir með erfðaefnið í dag, með þeim leikaðferðum sem áður voru þekktar og höfðu verið ástundaðar. Það er því ekki svo að frátafir í því að flytja þetta mál hafi af þeim sökum verið til stórkostlegra trafala fyrir kúabændastéttina en þeir hefðu getað farið aðrar leiðir og skilvirkari til að ná þeim árangri sem þeir stefna að með því að styðja þetta mál.

Það má líka velta fyrir sér, sem er náttúrlega miklu viðkvæmara mál bæði hjá þjóðinni og meðal bænda, hvers vegna við ættum að einskorða málið við holdanautgripi, hvers vegna við höfum ekki bara almenna löggjöf um það hvernig við stöndum að innflutningi á erfðaefni nautgripa. Er ekki miklu eðlilegra að við göngum þannig frá málinu að það sé almenn löggjöf þannig að vilji menn flytja inn erfðaefni annarra kynja, mjólkurkúakynja sem dæmi, séu leikreglurnar skýrar? Við skulum ekkert loka augunum fyrir því að verði þetta að lögum og fari að virka þá hækkar mjög þrýstingur úr þeirri áttinni sem vill fá afkastameira kúakyn og menn benda þá væntanlega á fordæmi þessa máls. Ég held því að það væri málinu til bóta alla vega að taka þá umræðu, þó svo að ég skilji pólitíkina á bak við það að nefna einungis holdagripi í málinu. Það er til þess að mæta ákveðnum sjónarmiðum og mjög heitum sjónarmiðum, bæði á meðal þjóðarinnar og meðal bænda.

Það eru mörg tækifæri til þess að efla nautakjötsframleiðslu á Íslandi. Ég vil vísa til þess að nú standa yfir mjög merkar rannsóknir á vaxtarhraða íslenska kúakynsins. Við eigum mikið óunnið í því að bæta fóðrun og aðbúnað, ná fram meiri vaxtarhraða, og ég tel að þar séu mikil sóknarfæri fyrir bændur til að auka hagkvæmni sinnar framleiðslu. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson ræddi hér um framleiðsluaðferðir og möguleika nautakjöts á erlendum mörkuðum, ég tek undir það, og það er nú þannig að einhver mest vaxandi grein landbúnaðar er á því sviði sem hann ræddi hér um, þ.e. í nautakjötsframleiðslu í heiminum, þar sem eru grasfóðraðir gripir. Þetta er að mínu viti eitthvað sem við eigum að setja í sarpinn þegar við tölum um eflingu landbúnaðar og eflingu nautgriparæktar á Íslandi. Það er hægt að vísa í fjölmarga aðra liði. Hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir fjallaði um aðbúnað og nú hafa skollið á bændum mjög strangar aðbúnaðarkröfur. Þær eru ekki allar beint til þess fallnar að efla búskap og efla landbúnað og hvernig við höfum háttað innleiðingu þeirra. Til lengri tíma er ég algjörlega sammála meginhugsun þeirra og ég vil fullyrða að það er keppikefli hvers bónda að búa sem best að sínum gripum. En það mætti mögulega ganga þar hægar um gleðinnar dyr, ekki síst vegna þess að við eigum svo óskaplega langt í land með að anna eftirspurn hér á landi. Það á sér líka þær ástæður sem hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir rakti áðan, verð í greininni og afkomu þessarar greinar. Það hefur að mínu viti batnað verulega á undanförnum mánuðum og missirum.

Það er líka eftirtektarvert og umhugsunarefni, án þess að við setjum á langar ræður um það, hvers vegna illa gengur að markaðssetja lambakjöt núna um stundir í auknum ferðamannastraumi, en það er einfaldlega staðreynd að fólk er vanara að borða nautakjöt og pantar sér þess vegna nautakjöt. Það er kannski ekki síður af þeim ástæðum sem þetta gat er komið á milli eftirspurnar og framleiðslu hér á landi, en ég vil alls ekki gera lítið úr því sjónarmiði að í of langan tíma, í of mörg ár hefur afkoma nautakjötsframleiðslu á Íslandi verið döpur. Það er erfitt að ræða þá stöðu og við erum einfaldlega að uppskera núna, með þessu gati sem ég nefni svo, í muninum milli framboðs og eftirspurnar á innlendum markaði, afleiðingarnar af því að hafa látið of lengi reka á reiðanum að búa til almennilega umgjörð um nautakjötsframleiðsluna.

Ég vil að endingu ítreka að við þurfum að láta málið ganga hratt og vel í gegnum atvinnuveganefnd. Vonandi tekst okkur að afgreiða það á þessu þingi, en við þurfum eins og aðrir hafa varað við í ræðum hér á undan að skilja mjög vel og átta okkur á áhættunni sem við tökum mögulega, reyna að róa fyrir sem flestar víkur og fara varlega. Ég hef ekkert skipt um skoðun í þeim efnum frá því sem ég hef áður talað um opinberlega, um áhættuna í þessum efnum og það mikilvæga starf sem við þurfum að sinna, að vernda sjúkdómastöðu íslenskra búfjárkynja.