144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[17:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér er í þinginu komin upp mjög háskaleg staða. Hinn sósíaldemókratíski landbúnaðarvængur hefur slegist til stuðnings við bæði Sjálfstæðisflokkinn og landbúnaðargúrú hans og hæstv. landbúnaðarráðherra, þannig að ég veit ekki hvort ferill minn verður öllu lengri eftir umræðurnar í dag.

Hins vegar vil ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög prýðilega ræðu sem flutt var af skyggnu mannviti. Ég hef engra hagsmuna að gæta, mér þykir kjöt gott en ég set nautakjöt í þriðja sæti, ég er hrossakjötsmaður og síðan kemur lambakjötið hjá mér. Ég er hins vegar alveg sammála hv. þingmanni um að það eru ákveðin tækifæri fram undan í framleiðslu á nautakjöti og ég sé það að við erum alveg á sömu línu með að hægt sé að plægja akur fyrir íslenskt nautakjöt erlendis. Ég held að framtíðin muni sýna það eftir að menn taka höndum saman um að endurskipuleggja greinina, sérstaklega vinnslu afurða og slátrun, og líka þarf að taka til höndum varðandi markaðssetningu þegar þar að kemur.

Ég hjó eftir einu hjá hv. þingmanni. Hann spurði þingheim, svo sem ekki af tilviljun, hvort menn ættu ekki bara að taka skrefið til fulls og hvort ekki væri eðlilegt að búa svo um hnúta að sá farvegur sem verið er að skapa í frumvarpinu nái ekki einungis til holdanauta heldur til allra nautgripa. Það finnst mér meira en einnar messu virði að íhuga og mig langar þess vegna að varpa þeirri spurningu aftur til baka og spyrja hv. þingmann hvort hann hyggist reifa þá hugmynd í vinnslu málsins í þinginu.