144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[17:47]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vil bara segja að mér hefur fundist við þessa umræðu að þeir sem tekið hafa þátt í henni hafi allir talað af mikilli þekkingu um málið (Gripið fram í.) og komið fram með góð og gild sjónarmið.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um muninn á þessu og því sem við gerðum áður, var það svo að í Hrísey rekin svokölluð einangrunarstöð. Við fluttum inn fóstur og höfðum þau í einangrun þar og tókum síðan næstu kynslóð í land. Ég nefndi það í ræðu minni áðan og sá farvegur er þekktur. Hann er í mínum huga sá rétti og er varfærnasta leiðin, en honum fylgir gríðarlegur kostnaður. Ég held að það sé fyrst og fremst ástæðan sem rekur menn til þess að flytja þetta mál og reyna þá leið sem hér er lögð til. Ég ætla þá aftur að taka eftirfarandi fram: Það má vel vera að það standi fullkomin rök fyrir því að segja að þetta sé algjörlega óhætt og ásættanleg leið, en ég held að einangrunarstöðvarþátturinn frá gömlum tíma og sá kostnaður sem honum fylgdi, þau kynslóðabil sem þar voru og sá kostnaður sem mundi þá leggjast á erfðaefnið sé meginástæðan fyrir því og meginmunurinn á því að við veljum þessa leið umfram þá gömlu og þekktu.