144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

framleiðsla, verðlagning og sala búvöru o.fl.

694. mál
[18:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum, nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru, lögum um Matvælastofnun og tollalögum, á þskj. 1168, mál nr. 694.

Með frumvarpi þessu sem samið er í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er einkum brugðist við gagnrýni í skýrslum Ríkisendurskoðunar frá árunum 2010 til 2014. Í skýrslunum voru meðal annars gerðar athugasemdir við að ekki væri ljóst af lögum eða samningum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við Bændasamtök Íslands að samtökin væru bundin af stjórnsýslu- og upplýsingalögum við framkvæmd verkefna á sviði landbúnaðarmála. Með samkomulagi í desember 2013 milli ráðuneytisins og Bændasamtaka Íslands var ákveðið að unnið yrði að flutningi stjórnsýsluverkefna frá samtökunum og til stofnana ráðuneytisins, m.a. að frumkvæði Bændasamtakanna. Var það mat ráðuneytisins að hluta verkanna væri best fyrir komið hjá Matvælastofnun eins og skráning greiðslumarks lögbýla og handhafa beingreiðslna og greiðslur beingreiðslna.

Í frumvarpinu er því að finna breytingar sem fela í sér að einfalda framkvæmd búvörulaga með þeim hætti að stjórnsýsluverkefni sem tilgreind eru í ákvæðum búvörulaga verði á hendi opinbers aðila, þ.e. Matvælastofnunar.

Í frumvarpinu er einnig að finna breytingar á búvörulögum sem snerta birtingu verðskráningar búvara, ráðstöfun skertra og ónýttra beingreiðslna í sauðfjárframleiðslu og söfnun upplýsinga um framleiðslu búvara, vinnslu þeirra og sölu. Einnig eru lagðar til breytingar á ákvæði laganna sem snúa að búfjáreftirliti í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu vegna breytinga sem urðu á búfjáreftirliti með lögum nr. 55/2013, um velferð dýra, og laga nr. 38/2013, um búfjárhald.

Lagt er til að ákvæði um verðskerðingargjald af verði kinda- og hrossakjöts í V. kafla laganna verði fellt úr gildi. Þá er lagt til að heiti laganna verði framvegis búvörulög, en það er almennt notað yfir lögin í töluðu og rituðu máli.

Í II. kafla frumvarpsins er fjallað um breytingar á lögum nr. 80/2005, um Matvælastofnun. Í kaflanum er skýrt hlutverk stofnunarinnar samkvæmt ákvæðum búvörulaga. Í kaflanum er einnig að finna ákvæði til bráðabirgða sem snýr að þeim starfsmönnum Bændasamtaka Íslands sem sinnt hafa þeim stjórnsýsluverkefnum sem lagt er til að verði flutt frá samtökunum til Matvælastofnunar.

Í III. kafla frumvarpsins er að finna breytingu á ákvæði tollalaga nr. 88/2005, vegna breytingar á heiti laganna sem lagt er til að verði framvegis búvörulög, eins og áður var frá sagt.

Verði frumvarpið að lögum mun það hafa áhrif á starfsemi Bændasamtaka Íslands sem hafa sinnt stjórnsýsluverkefnum á sviði landbúnaðarmála, en með flutningi verkefnanna verða gerð skýr skil á milli stjórnsýsluverkefna og hagsmunagæslu. Einnig mun samþykkt frumvarpsins hafa áhrif á starfsemi Matvælastofnunar, enda er gert ráð fyrir að stofnunin muni framvegis sinna þeim stjórnsýsluverkefnum sem Bændasamtök Íslands hafa sinnt til þessa.

Þá mun frumvarpið, verði það að lögum, ekki hafa íþyngjandi áhrif á bændur, þ.e. einstaklinga og lögaðila, sem falla undir ákvæði búvörulaga. Þess í stað munu þau stuðla að einfaldari og skýrari stjórnsýsluframkvæmd.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og ástæðum fyrir framlagningu þess og legg til að því verði vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.