144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

sjávarútvegsmál.

[10:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það ætti kannski að taka hér upp liðinn „Dylgjur í garð ónafngreindra þingmanna“, í stað fundarstjórnar forseta miðað við þessa byrjun á þingfundi, en við getum rætt það síðar.

Mig langaði að beina fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ljósi frumvarps sem hann hefur lagt fram um úthlutun á veiðiheimildum á makríl. Eins og hæstv. ráðherra er kunnugt er þetta frumvarp umdeilt af því að þar er verið að festa í sessi úthlutun á makrílkvóta til sex ára, í talsvert langan tíma. Eins og bent hefur verið á með frumvarpið, verði það að lögum óbreytt, bindur það hendur ekki bara þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr heldur þeirrar næstu, og á sama tíma liggur ekki fyrir framtíðarsýn um stjórn fiskveiða, á sama tíma liggur ekki fyrir framtíðarsýn sem unnið er að í stjórnarskrárnefnd, en eitt af forgangsatriðum stjórnarskrárnefndar sem nú starfar er að setja inn ákvæði um að auðlindirnar skuli vera í sameign þjóðarinnar. Vonandi komast þau ákvæði í almenna kynningu í lok vors, byrjun sumars. Ég bind að minnsta kosti vonir við að ef sátt næst um slík ákvæði geti þau farið inn í stjórnarskrá, a.m.k. komið til afgreiðslu þjóðarinnar samhliða forsetakosningunum 2016.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, sem hafði í bígerð að leggja fram frumvarp um framtíðarfyrirkomulag á stjórn fiskveiða, hvort hann telji ekki rétt að bíða með frumvarp sitt um úthlutun makrílkvóta, sem er gríðarleg breyting, grundvallarbreyting á kerfinu hvað varðar þessa fisktegund, þar til við erum að minnsta kosti farin að sjá á spilin með stjórnarskrárákvæði um auðlindir í sameign þjóðarinnar, og þar til við erum farin að sjá á spilin um framtíðarfyrirkomulag fiskveiða. Ég verð að segja að mér finnst ekki góður bragur á því (Forseti hringir.) að taka hér ákvörðun fram í tímann sem mun hafa fordæmisgildi um eina fisktegund, meðan þau spil liggja ekki á borðinu.