144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

sjávarútvegsmál.

[10:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég skil þau sjónarmið hæstv. ráðherra að vilja bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis með einhverjum hætti. En hér er verið að setja lög til lengri tíma, sex ára, án þess að framtíðarsýn um stjórn fiskveiða liggi fyrir. Og ekki nóg með að hún liggi ekki fyrir heldur höfum við í stjórnarandstöðunni og almenningur í landinu ekki séð annað en að það ríki beinlínis deilur innan ríkisstjórnarinnar um hvernig sú framtíðarsýn eigi nákvæmlega að vera.

Það sem ég er að benda á er að það að setja lög um hlutdeildarsetningu á makríl til sex ára, til ansi langs tíma, sem er fordæmisgefandi fyrir kerfið í heild, er mjög örðugt þegar við höfum ekki framtíðarsýn á borðinu, þegar við höfum ekki stjórnarskrárákvæði á borðinu. Ég fagna því að hæstv. ráðherra taki undir mikilvægi slíks ákvæðis og veit að hann hefur talað með þeim hætti sem hann gerði hér áðan margoft. Ég er hins vegar ekki sannfærð um að hér náist sátt í öllum þingsal um slíkt ákvæði.

Er ekki skynsamlegra að bíða með ákvörðun sem tekin er til þetta langs tíma þangað til þessi sýn liggur á borðinu? (Forseti hringir.) Eitt stærsta málið sem við eigum við í stjórnmálum dagsins í dag er meðferð auðlindanna, hvernig almenningur á að koma nákvæmlega að því að fá sinn þátt í arðinum sem auðlindirnar skila okkur.