144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

makrílfrumvarpið og auðlindaákvæði.

[10:40]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að halda aðeins áfram með það mál sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir ræddi hér áðan. Við í Samfylkingunni og fulltrúar okkar í atvinnuveganefnd höfum lagt á það mikla áherslu að með þetta mál verði beðið þangað til niðurstaða er komin í stjórnarskrármálið, þ.e. hvernig farið verður með auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar.

Fyrsta spurning mín til hæstv. ráðherra er því sú: Hvers vegna liggur mönnum svona á? Þingið hefur þetta í hendi sér og það er mikilvægara fyrir okkur að tryggja eign þjóðarinnar á auðlindunum í stjórnarskrá en að keyra þetta mál áfram með þeim hætti sem hér er gert. Fólki í þessu landi hefur sviðið það ranglæti sem það hefur horft upp á frá því að kvótakerfið var fyrst sett á og úthlutað var aflaheimildum, svokölluðum gjafakvóta, með afar umdeildum hætti, sem enn er umdeilt og margir efast um að það hafi yfir höfuð staðist lög á þeim tíma.

Hvað gerir þá hæstv. ráðherra nú þegar ný tegund kemur? Þá ætlar hann að taka upp nákvæmlega sömu hætti og fólki hefur sviðið undan í þessu landi allt frá því að kvótakerfið var sett á, og gefa auðlindina, gefa aflaheimildirnar, það er nefnilega ekki neitt annað þegar uppsagnarfresturinn er heil sex ár. Það þýðir að hér þarf ríkisstjórn að vera kjörin tvisvar sinnum í röð til þess að hægt sé að gera nokkrar breytingar. Við skulum bara horfa á lýðveldissöguna, þá sjáum við að ef þetta hefði verið gert svona þá hefðu aldrei verið gerðar neinar breytingar og við sjáum fram á að þetta verði endanlegt.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hví er ekki pósitíft ákvæði um sameign þjóðarinnar í frumvarpinu? Þetta er sérstakt frumvarp, það er algjörlega ljóst, og það kemur þar fram að komi upp vafamál gagnvart öðrum lögum gangi þetta framar. Og hitt: Hví á ekki að nota tækifærið núna og reyna að svara kalli um aukið réttlæti (Forseti hringir.) í sjávarútvegi og koma með nýjar aðferðir aðrar en gjafakvóta og setja þetta allt saman (Forseti hringir.)