144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

úthlutun makríls.

[10:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við höfum einstakt tækifæri þegar kemur að núna úthlutun á makrílkvóta, að setja makríl í kvóta, sem er nauðsynlegt fyrir sjálfbærni, að í stað þess að fara þá leið að sjávarútvegsfyrirtæki sem verið hafa að veiða hann og leigja og selja sín á milli á markaðsvirði fái þennan kvóta, þá getur hið opinbera, ríkið, sem fulltrúi þjóðarinnar, leigt kvótann til sjávarútvegsfyrirtækjanna á markaðsvirði. Það er það sem landsmenn vilja. Það væri sanngjarnt, en þá spyrja menn: En hvað með væntingar fyrirtækjanna sem fjárfest hafa til að veiða makríl? Hvað með réttmætar væntingar þeirra? Ókei, það væri hægt að koma til móts við þau með því að spyrja þau um hvað þau hafi fjárfest mikið til að veiða makríl, þau yrðu að gefa upp. Ef þau geta sýnt fram á að þau hafi fjárfest svo og svo mikið til að veiða makríl mundu þau fá ákveðna úthlutun til bráðabirgða, kannski til sex ára, og þá væri það ekki framlengt til sex ára eða á þeim forsendum sem þau hefðu fjárfest. Þá mundu þau fá leigukvóta frá ríkinu með þeim afslætti til þess að endurheimta fjárfestingar sínar. Þetta væri hægt að gera. Dyrnar eru galopnar í þessu frumvarpi. Í frumvarpinu segir að stangist frumvarpið á við önnur lög um stjórn fiskveiða skuli þetta frumvarp ráða. Þetta er hægt að gera núna.

Réttlætingin fyrir kvótakerfinu eins og það er er núna er þessi: Nei, þetta er búið að vera svo lengi, menn eru búnir að kaupa og selja sín á milli þannig að við getum ekki gert neitt núna með það.

En þetta er ný fisktegund sem verið er að setja í kvóta núna. Það er hægt að gera þetta núna. Ég spyr því hæstv. sjávarútvegsráðherra: Er ekki mögulegt lagalega og tæknilega séð að gera þetta núna?