144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

úthlutun makríls.

[10:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að það bera upp á hv. þingmann að hann hafi gefið lögmætar væntingar á síðasta kjörtímabili þegar síðasta ríkisstjórn var við völd, þegar makrílnum var meðal annars úthlutað handvirkt (JÞÓ: Ég var ekki í síðustu ríkisstjórn.) (Gripið fram í.) — ég er ekki að því — til einstakra útgerða sem ekki höfðu fengið aflareynslu eða veiðireynslu, til að reyna að dreifa veiðunum um allt land. Við höfum síðan fylgt því eftir um fimm ára skeið og skapað ákveðnar lögmætar væntingar. Þær eru fyrir hendi. Einnig voru gefin út fyrirheit um að þeir sem hófu veiðarnar gætu vænst þess að til þess að yrði horft við hlutdeildarsetningu þegar að henni kæmi ef þeir mundu beina veiðunum í átt að manneldisvinnslu. Eins og ég hef áður sagt kemur skýrt fram í áliti umboðsmanns Alþingis að skylt hafi verið að hlutdeildarsetja makrílinn í síðasta lagi árið 2011 miðað við núgildandi löggjöf og þær lögmætu væntingar sem aðilar geta haft, eða að setja sérlög.

Hv. þingmaður spyr síðan: Getum við farið einhverjar aðrar leiðir til að innheimta auknar tekjur af því vegna þess að makríllinn hefur ekki verið hlutdeildarsettur áður og er að fara inn í þetta kerfi? Svarið við því er: Já, það getum við. Sú leið sem hér er farin, að úthluta tímabundið til sex ára með viðbótargjaldi til þess að þjóðin fái stærri hlut af þeirri köku, er valin vegna þess að sú leið sem við hefðum kosið að fara, þ.e. að geta skattlagt við sölu á aflaheimildum milli útgerða, sem hefði verið ákjósanlegt, var því miður ekki fær vegna þess að möguleiki var á því að það yrði sniðgengið í miklum mæli. Við erum sannarlega að reyna að hafa þetta tímabundið til þess að gera þetta öðruvísi af því að um nýjan stofn er að ræða, og (Forseti hringir.) leggja á viðbótargjald sem er eðlilegt því að (Forseti hringir.)