144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

stytting náms til stúdentsprófs.

[11:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka fram að með því að farið er úr fjögurra ára kerfi í þriggja ára kerfi er ekki verið að vinna málið þannig að allir skuli klára á þremur árum og enginn annar möguleiki sé til staðar, rétt eins og í fjögurra ára kerfi eru möguleikar fyrir nemendur til að vera lengur í námi en tekur fjögur ár. Það mun ekki breytast þannig að áfram verður sá sveigjanleiki.

Hvað varðar málefni Menntaskólans í Reykjavík má ljóst vera að við getum ekki stillt framhaldsskólakerfinu okkar upp út frá einum skóla. Ég er heldur ekki viss um að Menntaskólinn í Reykjavík vilji vera til dæmis eini skólinn með fjögurra ára nám, þ.e. frá 16–20 ára, ég er ekki alveg viss um að svo sé, enda snúa þær hugmyndir sem ég hef heyrt frá þeim skóla ekki að því. Þær hafa snúið meira að því að eiga möguleika á að taka krakka beint úr 10. bekk inn í skólann. Skólinn væri í svolítið sérstakri stöðu ef aðrir skólar sem skólinn keppir við um nemendur bjóða upp á þriggja ára nám til að klára stúdentsnámið og þeirra nemendur geta þá, þegar þeir standa á 19 ára aldursárinu, hafið nám í háskóla, en þeir sem koma út úr Menntaskólanum í Reykjavík þurfa að (Forseti hringir.) koma ári síðar. Ég er ekki viss um að það væri gott fyrir Menntaskólann í Reykjavík.