144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[12:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem fram kom í framsöguræðu minni, ég geri mér grein fyrir því flækjustigi sem hér er og jafnframt því sem hv. þingmaður nefnir, að tæknibreytingar eru mjög örar. Það má segja að meira að segja við vinnslu frumvarpsins og á undanförnum árum hafi orðið stórstígar breytingar eða framfarir á þessu sviði. Þá er nauðsynlegt að tryggja í yfirferð þingsins að tekið sé tillit til þeirra breytinga og frumvarpið endurspegli sem best þann raunveruleika sem við búum við.

Þá má hafa í huga að þetta verður eitt af þessum svokölluðu eilífðarverkefnum sem við erum að fást við í þinginu vegna þess að þetta mun auðvitað halda áfram. Þessar tæknibreytingar munu ekki hætta núna, hraði þeirra mun jafnvel aukast og þingið mun þurfa að bregðast við með reglubundnum hætti til að uppfæra löggjöf um höfundavarin verk, réttindi höfunda og almenningsaðgengi að efni. (Forseti hringir.) Hvað varðar upphaflegu spurninguna eins og hvað verði um myndverkið af þeirri kirkju sem þingmaðurinn nefndi er þetta einmitt enn og aftur spurning (Forseti hringir.) um höfundavarin verk, hvers eðlis þau eru og hvernig við getum tryggt sem best aðgengi að slíkum verkum án þess að (Forseti hringir.)