144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[12:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel einsýnt að það verði að gera það sem hægt er að gera til að tryggja höfundarétt manna rétt eins og önnur eignarréttindi. Ég geri mér líka grein fyrir þeim vandkvæðum sem þarna eru uppi og þess vegna er ég þeirrar skoðunar, vegna þeirrar línu sem þarf að liggja á milli tjáningarfrelsis og frelsis hvað varðar notkun á internetinu annars vegar og hins vegar höfundaréttarins, að þegar kemur að því að beita einhverjum réttarúrræðum til að loka til dæmis vefsíðum sé best að það fari í gegnum dómstóla. Það er mín skoðun. Aftur á móti heyrir það mál undir innanríkisráðuneytið að stórum hluta, en ég taldi rétt í framsöguræðunni að lýsa þessari skoðun minni.

Hvað varðar það að iðnaðurinn blómstri vil ég þó benda á útgáfu á íslenskri tónlist, það er mikið áhyggjuefni fyrir okkur að sjá hvernig sú útgáfa hefur þróast hér á síðustu tveimur árum þegar horft er til fjölda útgefinna hljómdiska og annars slíks eða fjölda af útgefnum verkum (Forseti hringir.) á diskum eða með öðru móti. Sú þróun hefur ekki verið jákvæð í heildina.