144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[12:37]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég veit um þetta mál er það sem ég heyrði í ræðu hæstv. ráðherra hér áðan. Þó að framsaga hæstv. ráðherra hafi verið prýðileg verð ég að viðurkenna að hugurinn hvarflaði annað á köflum. Þetta eru þrjú nokkuð veigamikil frumvörp sem hér eru tekin saman í einu slengi sem er ekki mjög jákvætt. Ég hefði búist við að þau yrðu rædd hvert í sínu lagi og velti fyrir mér sömu hlutum og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir áðan, hvort hæstv. ráðherra byggist við því að þetta yrði klárað á vorþinginu. Mér heyrist hann ekki alveg bjartsýnn á að það muni gerast enda fyndist mér það óhófleg bjartsýni, það er nú ekki nema mánuður eftir af auglýstum starfstíma þingsins.

Mig langar að spyrja: Af hverju kom hæstv. ráðherra ekki fyrr með þessi mál inn í þingið?