144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[12:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér hafa orðið einhver mistök. Þetta eru þrjú mál, hvert öðru stærra, og hér eru þau rædd öll saman í einu þegar miklu betra hefði verið að ræða þau hvert fyrir sig vegna þess að þetta fyrirkomulag skerðir mjög verulega tíma okkar þingmanna til að ræða málin. Við hefðum haft 45 mínútur í heild til að ræða öll málin sem ég tel reyndar ekki að við hefðum endilega þurft vegna þess að viðamesta málið, nr. 702, er sennilega það sem hefði þurft miklu meiri tíma en hin. Í staðinn höfum við 15 mínútur til að tala um öll málin í einu og sömuleiðis getum við einungis farið í andsvör við hæstv. ráðherra einu sinni eftir framsögu fyrir öll þrjú málin. Það er kannski hvimleiðara þar sem ein mínúta til að spyrja spurninga er einfaldlega ekki nógur tími til að halda utan um allt sem hér er um að ræða.

Hér eru mjög mörg viðamikil mál á ferðinni og þess vegna verð ég að mótmæla því harðlega að þau séu rædd öll saman í einu. (Forseti hringir.) Ég kem að því aftur seinna meir hvernig á þessu stendur öllu saman en ég verð að mótmæla harðlega.