144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[12:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir viðleitnina. Hins vegar hefur samstarf þingflokksformanna við forseta upp á síðkastið verið mjög gott og það er mikil samstaða um dagskrána hér í dag og næstu daga. Ég hélt að mönnum væri ljóst að við píratar litum á málið sem mjög mikilvægt og legðum í öllum okkar samtölum ríka áherslu á að okkar sjónarmið kæmu fram án þess að markmiðið væri að tefja neitt, það væri einfaldlega vegna þess að hér er um mjög viðamikil mál að ræða sem við tökum mjög alvarlega. Þess vegna kemur mjög á óvart að þetta hafi verið ákveðið án þess að þingflokksformenn væru í salnum eða reyndar að því er virðist þingmenn yfir höfuð sem var eðlilegt enda var tillagan borin upp í miðju matarhléi. Ég tók eins stutt matarhlé og ég gat hugsað mér og á þeim tíma sem ég taldi passa best. Það dugði ekki til. Þó kom ég hlaupandi inn um leið og ég sá höfundamálin koma á dagskrá þrátt fyrir að fyrsta málið, sem er 700. mál, væri ekki málið sem ég hafði hugsað sér að tala um heldur 702. málið. (Forseti hringir.) Þá var það þegar byrjað, búið að taka þessa ákvörðun og allt orðið of seint. Þetta finnst mér hvimleitt með hliðsjón af því að við höfum verið mjög skýrmælt um að þetta séu mál sem okkur er mjög annt um.