144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[13:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili áhyggjum hæstv. ráðherra hvað varðar íslenska tungu. Núverandi útfærsla af höfundarétti mun ekki laga það heldur, vegna þess að á meðan þróunin á sér stað gagnvart erlendri tónlist, jafnvel íslenskri tónlist á enskri tungu, breytir það því ekki að fólk hefur aðgang að meira efni. Ég sé í raun ekki fram á að hægt væri að leysa það með hefðbundnum leiðum öðruvísi en að skera á tengslin við útlönd, sem ég geri fullkomlega ráð fyrir að enginn sé reiðubúinn til að gera.

Heimamarkaðsvandamálið, eins og ég ætla að kalla það, er til staðar hvernig sem við lítum á það. Að mínu mati, og það fer í raun út fyrir þetta, er það miklu víðtækara vandamál sem við þurfum að reyna að takast á við í þeim tilgangi að viðhalda íslenskri tungu og íslenskri menningu.

Svo er hitt að það er pínulítill hópur tónlistarmanna sem nær nokkurn tíma miklum árangri, sem á ensku kallast, virðulegi forseti, að „meika“ það. Það hefur hins vegar alltaf verið þannig. Það er ekkert nýtt. Það er í raun og veru frekar þannig að tónlistarmenn og listamenn almennt sem aldrei áttu möguleika fyrir 30 árum geta alla vega núna, með mikilli vinnu og skipulagi, komið sér á framfæri. Sú var tíðin að eina leiðin til þess var í gegnum útgáfufyrirtæki. Það er annað sem er að breytast. Það hefur bæði góðar afleiðingar og slæmar. Ein af góðu afleiðingunum er sú að það er lýðræðislegra fyrirkomulag í kringum það hver nær athygli og hver ekki. Hið slæma er auðvitað að kakan skiptist milli fleiri aðila sem þýðir að færri geta beinlínis lifað af sölu á tónlist eða jafnvel af framleiðslu hennar.

Þetta er allt eitthvað sem við þurfum að sjá hvernig gengur til lengri tíma. En þótt þessi frumvörp muni ekki beinlínis stöðva það, nema hugsanlega — nú vantar mig meiri tíma — þetta með framlengingu verndartímans, sem ég hefði viljað ræða sérstaklega, þá finnst mér vanta áhersluna á að við reynum að byggja löggjöfina út frá þessum nýja tíma en ekki út frá gamla tímanum (Forseti hringir.) með hliðsjón af þeim nýja.