144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[14:04]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég er alveg í öngum mínum yfir því hversu lítinn tíma ég hef til að fara yfir þessi mál. Margir halda að píratar og netverjar almennt vilji fá allt ókeypis og séu upp til hópa talsmenn þjófnaðar á hugverkum. Það er byggt á miklum misskilningi. Ég ætla að leitast við að útskýra af hverju við þurfum að endurskoða höfundaréttarlög út frá þeim veruleika sem við lifum í í dag. Ég sé ekki að við færumst nær hinum nýja tíma með þessum lagabreytingum, þvert á móti erum við fullkomlega stöðnuð.

Ef ég kaupi til dæmis raunheimabók í dag hef ég fullan rétt og getu til að lána eins mörgum og ég vil þá bók án þess að biðja útgefanda um heimild eða ég sé skilgreind sem glæpamaður. Ég hef meira að segja tekið þátt í alþjóðaverkefnum þar sem bækur eru skildar eftir á víðavangi og sá sem finnur bók er hvattur til að lesa hana og skilja hana svo eftir til að aðrir geti notið hennar. Markmiðið er að fá sem flesta til að lesa. Ég má líka lána geisladiskana mína og jafnvel gefa þá og þarf ekki að fá heimildir til þess, sennilega vegna þess að ekki er hægt að stoppa það í raunheimum nema með algeru lögregluríki.

Eftir tilkomu internetsins hefur sú menning að deila hugverkum meðal vina, jafnvel stafrænna vina, og vandamanna á milli heimsálfa færst yfir á annað stig og auðveldara er að deila hugverkum en áður. En vegna þess hvernig netið er uppbyggt er miklu auðveldara að fylgjast með því hverjir deila og hvernig, setja því skorður og glæpavæða það. Píratar hafa áhyggjur af þeirri þróun því að þeir sem hafa náð hvað mestum árangri í glæpavæðingu og deilingu eru valdamiklir, eru með annan fótinn á skrifstofum þingmanna vestan hafs og taka mjög virkan þátt í stefnumótunarvinnu löggjafarvaldsins. Þau lagalegu skrímsli sem hafa komið út úr þeirri vinnu hafa stefnt því frjálsa neti sem við eigum að venjast í hættu og nú þegar eyðilagt frjálst flæði upplýsinga. Margt ungt fólk hefur fengið fáránlega þunga dóma fyrir að deila menningu, skjölum, vísindalegum rannsóknum og upplýsingum er varða almannahag. Voldugustu höfundaréttarhafarnir eru oftar en ekki ekki listamennirnir sjálfir heldur milligöngumenn sem hirða til sín gróðann, byggðan á hugverkum þeim sem listamennirnir hafa skapað, og þeir bera mjög mikla ábyrgð á því ástandi, þ.e. hinir raunverulegu höfundaréttarhafar. Í frétt sem var á RÚV í síðustu viku var fjallað um ríkustu menn á Bretlandseyjum og er það enginn annar en Len Blavatnik, eigandi Warner Music, sem er ríkasti maður þar, sem segir mjög mikið um hverjir fá eitthvað af höfundaréttarkökunni.

Stóru hagsmunaaðilarnir hafa haft frumkvæði að því að reisa múra í netinu sem margir hérlendis hafa upplifað með því að geta ekki á löglegan máta keypt tónlist í gegnum iTunes eða sjónvarpsþætti og kvikmyndir í gegnum Netflix eða Amazon. Þeir múrar hafa síðan verið fyrirmynd sambærilegra múra sem ríkisstjórnir hafa notað til að hindra frjálst flæði upplýsinga, eins og t.d. þegar Amazon sparkaði WikiLeaks með efni sitt út úr stafræna skýinu sínu vegna pólitísks þrýstings frá yfirvöldum í Bandaríkjunum. Mörg lönd gerðu tilraun til hins sama með misjöfnum árangri. Þá reyndi á netsamfélagið sem endurritaði vef WikiLeaks og kom honum yfir á það sem kallað eru speglar, víðs vegar um heim, þar sem menning og lagahefð lætur rétt almennings til upplýsinga njóta vafans.

Margir listamenn hafa gert tilraunir með óheft aðgengi að hugverkum sínum og tekið þátt í þeirri merkilegu þróun sem á sér stað með því að finna upp ný viðskiptamódel að hugverkarétti og afglæpavæðingu, með því að deila gögnum um hugverk sín. Má þar nefna til dæmis Neil Gaiman, Paulo Coelho og Cory Doctorow. Þeir, ásamt fjöldamörgum öðrum, hafa skilið að með því að veita sem flestum aðgengi að hugverkum sínum í netheimum seljast hugverkin þeirra einfaldlega miklu betur í raunheimum og víðar um heim. Það er tímabært að við finnum sameiginlegar og sanngjarnar lausnir. Græni hópur Evrópuþingsins gaf til dæmis út bók um heildarendurskoðun á höfundaréttarlögum eftir Falkvinge, upphafsmann Pírata í Svíþjóð, og Engström, fyrsta Evrópuþingmann Pírata. Píratar vilja styðjast við þær tillögur sem þar má finna og óska þess og vilja vinna að því að hérlendis verði frambærileg stefna í anda 21. aldarinnar í höfundaréttarlögum.

Það er ekki hægt að slíta í sundur þær hefðir sem hafa myndast meðal netverja um heim allan og hólfa niður í einsleita stefnu um höfundarétt. Allt of mikið er í húfi til að þær leikreglur sem tíðkuðust séu einfaldlega yfirfærðar á þann heim sem við búum í núna. Flestir undir þrítugu þekkja aðeins veruleika þar sem frjálst flæði upplýsinga, samskipta, menningar og samfélags er normið, landamæralausi heimurinn sem netið hefur mótað hefur orðið til framþróunar í heimi okkar, sem erfitt er að útskýra fyrir þeim sem ekki eiga hlutdeild í þeim heimi. Friðhelgi einkalífs er eitthvað sem flestir hafa í hávegum, sem eina af grundvallarstoðum mannréttinda í þroskuðum lýðræðisríkjum. Því miður er það svo að sú friðhelgi er að engu höfð í netheimum. Flest lög sem eiga að vernda okkur gagnvart ágangi fyrirtækja og stjórnvalda, sem hnýsast í einkaupplýsingar okkar, eru algerlega úrelt þegar kemur að netheimum. Úrbætur þar þurfa að haldast í hendur við heildræna endurskoðun á höfundaréttarlögum og í því samhengi er vert að skoða 21. gr. í 702. máli er lýtur að milliliðum. Þar á að gera tilraun til að setja á meiri vernd fyrir milliliðinn, sem er auðvitað tímabært. Það þarf að tryggja að til staðar sé raunveruleg milliliðavernd í anda þeirrar stefnu sem á að móta í þróun netvæns Íslands. Mig langaði í því samhengi að beina fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra varðandi milliliðaverndina eða lögbannið sem er í 21. gr. Það er verið að koma með alls konar stefnur og vinna að því að gera Ísland að frambærilegu landi, að það verði netvænt land og hafi lagalega sérstöðu í þeim málum. Nú er það svo að í ráðuneyti hæstv. ráðherra er verið að vinna að lögum sem ríkisstjórninni var falið að vinna í tengslum við þingsályktunartillögu um að Ísland taki afgerandi lagalega sérstöðu varðandi upplýsingar og tjáningarfrelsi og þar er sérstaklega fjallað um milliliðavernd. Mér og fleiri pírötum þótti ákaflega mikilvægt að því yrði haldið áfram á sem víðtækastan hátt og var því fundinn staður í netvæna Íslandi. Ég ætla að vísa í umsögn frá IMMI, alþjóðlegri stofnun um upplýsingar- og tjáningarfrelsi, um nákvæmlega þennan þátt í netvæna Íslandi, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að ítreka mikilvægi ákveðinna þátta þegar hugað er að réttindavernd fyrir notendur.“ Og þá er það milliliðaverndin: „Vernd milliliða, sem áðurnefnd þingsályktunartillaga tekur til, er lykilþáttur í því að laða hingað til lands fyrirtæki sem starfa í þeim geirum þar sem upplýsingamiðlun á sér stað, enda myndi það valda hýsingarfyrirtækjum miklum vanda ef þau væru lagalega ábyrg, að öllu jöfnu, fyrir þeim upplýsingum sem eru hýstar hjá þeim. Á sama tíma vilja þeir sem hýsa gögn vera öruggir um sinn hag. Ekki síst vilja þeir sem hýsa vefsíður eða annað á Íslandi vera öruggir um að verða ekki fyrir ritskoðun eða hvers kyns tálmun á útgáfu, nema til dómsúrskurðar komi.“ Mér sýnist einmitt að taka eigi á því í þessari grein en vil fá það staðfest frá ráðherra þannig að alveg öruggt sé að ég misskilji það ekki. „Því er ekki hægt að gera milliliði ábyrga, og lög um það verða að vera skýr.“ Þá langar mig líka að spyrja hvort ráðherra telji að þetta sé nægilega skýrt. „Þetta tekur til fjarskiptalöggjafarinnar og laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.“ Þetta atriði í þessum lögum stangast á við lög um rafræn viðskipti. Mér finnst svo mikilvægt þegar við fjöllum um þessi lög í nefnd að alveg öruggt sé að þau samrýmist öðrum lögum sem heyra undir önnur ráðuneyti eða þá stefnu sem verið er að vinna í. Svo held ég áfram: „Stór fyrirtæki sem hingað kunna að vilja flytja sína starfsemi, sem og lítil og millistór fyrirtæki, gera það ekki ef þessi ákvæði eru ekki skýr og er þetta meginuppistaða þeirra laga sem IMMI þingsályktunin kveður á um er varðar viðskipti og sóknarfæri í þeim efnum á heimsvísu.“

Mig langar að upplýsa hæstv. menntamálaráðherra um að ég hef verið í nánu samstarfi við aðila, sérfræðinga á þessu sviði erlendis, því að það vill svo til að í þessu tilliti erum við ekki eyland. Það var nýverið, það eru kannski þrjár vikur síðan, sem haldinn var mikilvægur fundur á Filippseyjum og þar búin til það sem kallað er ný Manila-viðmið, akkúrat um milliliðina. Ég tel mjög mikilvægt að skoða þau viðmið. Það þótti nást tímamótaárangur á þeim fundi. Það hefur verið erfitt að finna lausn á þessu út af höfundaréttarlögum, af því að fjarskiptalögin vísa alltaf í höfundaréttarlögin. Síðan ef það er tekið lengra eru menn allt í einu komnir inn í höfundaréttarsamninga sem voru samdir á 18. öld og hefur ekki verið breytt síðan 1970 og eitthvað. Ég tel mjög brýnt að við skoðum þetta samfellt þannig að löggjöfina stangist ekki á við eitthvað, sem þýðir að þeir sem hafa áhuga á að hýsa efni hérlendis halda áfram að halda að sér höndum. Við höfum eiginlega misst af lestinni á meðan risastór fyrirtæki, hýsingarfyrirtæki, hafa tekið sér bólfestu í löndum allt í kringum okkur. Vegna seinagangs við að klára þessa þingsályktunartillögu höfum við misst svolítið af lestinni og ég vona og mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort hann deili ekki þeirri sýn minni og mjög margra annarra að Ísland væri ákjósanlegur staður til að hýsa gögn og að setja eigi stefnu um það með nútímalegri löggjöf, sem aðrir geta þá séð hvort virkar eða ekki hérlendis, byggða á bestu mögulegu tilraunum annars staðar frá. Með því að hafa það heildrænt fáum við mikil sóknarfæri. Við nýttum okkur ekki það sóknarfæri sem við fengum fyrir nokkrum árum síðan en betra er seint en aldrei.

Síðan langar mig aðeins að fara yfir í allt annað og það eru ákveðnar áhyggjur varðandi lengingu á verndartíma höfundarlaga, sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson ræddi aðeins í ræðu sinni. Ég vildi árétta hversu mikilvægt það er að maður nýtur ekki höfundaréttar ef maður er dáinn. Ég mundi vilja sjá tryggt í nýjum höfundaréttarlögum að listamenn njóti þess að fá greitt fyrir vinnu sína á meðan þeir lifa þannig að þeir geti skapað án þess að hafa fjárhagslegar áhyggjur á blómatíma sínum, sem hlýtur að vera út lífið af því að það er þannig með listamenn að margir hverjir gera oft bestu verk sína annaðhvort þegar þeir eru unglingar eða eldgamlir. Mér finnst mjög bagalegt að sjá okkur taka upp þessa vitleysu.

Ég veit að hæstv. ráðherra þekkir það lag ágætlega sem hljómar svona, með leyfi forseta: „Video killed the radio star.“ Við þekkjum það lag. Það er áminning um að við erum alltaf og sífellt á umbreytinga- og umbyltingatímum þar sem ein tegund af einhverju þróast yfir í eitthvað annað. Ég veit að þessi löggjöf er ekki runnin undan rifjum ráðherrans heldur kemur annars staðar frá, eins og mörg Evrópulög, en mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann telji ekki rétt að bíða aðeins. Það er náttúrlega mjög skynsamlegt að leggja málið fram og fá umsagnir og það verða kannski til skýrari línur um hina umfangsmiklu og metnaðarfullu höfundaréttarstefnu, umbyltingu á höfundarétti hjá Evrópusambandinu, af því að við endum alltaf á því að taka upp lög þeirra.

Ég ætla ekki að demba mikið fleiri spurningum á hæstv. ráðherra því hann kemst aðeins í andsvör og getur ekki farið í ræðu. Ég vona að við gefum okkur tíma til að fara almennilega yfir þetta.