144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[14:25]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það eru góðar fréttir. Ég held að það sé til bóta varðandi milliliðina að það sé þannig að fólk fái tækifæri til að verja sig, það er til bóta. Ég mundi vilja skoða þetta ákvæði mjög vel og það er ekki ósennilegt að Píratar eða fulltrúi okkar í allsherjar- og menntamálanefnd muni koma með einhverjar tillögur að styrkingu á því ákvæði fyrir milliliðina.

En það er eitt varðandi listamenn. Ég veit ekki hvað ég er búin að styrkja marga núna gegnum Karolina Fund sem er frábært framtak og hefði aldrei verið mögulegt nema út af internetinu. Ég er til dæmis að fara núna í leikhús af því að ég styrkti leikrit, ég hef styrkt ljóðabækur og guð má vita hvað, bara alls konar efni, og unga tónlistarmenn til að gera sín fyrstu verk. Ég held að við séum einmitt að upplifa þessa þörf einhvern veginn af því að þeir eru svolítið týndir sem voru kannski að byrja. Það er nánast ómögulegt fyrir rithöfunda, myndlistarmenn eða tónlistarmenn að fá ritlaun fyrir sitt fyrsta verk. Þarna er fólk að fá tækifæri til að fá stuðning og vekja athygli á verkum sínum og sum þessi verkefni í Karolina Fund hafa farið svo margfalt yfir það sem fólk var að biðja um, ótrúlega gott veganesti og allt það. Við þurfum því ekki að hafa svo rosalega miklar áhyggjur af þessu. Ég sé ekki fyrir mér framtíðina þar sem eru bara ríkisstyrktir listamenn af því að listamenn eru skapandi fólk og það eru aðrir sem vilja vinna með listamönnum sem eru skapandi fólk á sviði viðskipta, þannig að ég hef engar áhyggjur af þessu. Ég held einmitt að þeir sem skrifuðu margar af þeim lausnum á höfundaréttarlögum séu svolítið skilningsvana á að listin finnur alltaf leið til að verða til. Hún er bara hluti af mannlegu eðli.