144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[14:28]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir ræðu hennar og innlegg Pírata í þessari umræðu. Ég verð að viðurkenna að þótt ég hafi verið hér í sal og var of seinn að mótmæla þá kom mér á óvart að hér skyldu vera rædd í kippu þrjú frumvörp, ekki vegna þess að þau heyri ekki saman heldur einfaldlega vegna þess að það er erfitt að greina þau í sundur í umræðunni.

Það sem ég tók eftir hjá hv. þingmanni og vakti athygli mína var að hv. þingmaður notaði orðalagið „hefðir netverja“. Það segir okkur dálítið mikið um það hvað netið er strax orðið gamalt og þróað. Það minnir okkur á að það er orðið algerlega úrelt að horfa fram hjá því, við erum alltaf að tala um einhverjar aðrar lausnir, en það má ekki horfa fram hjá því.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að ég var á fundi á vegum Sambands Norrænu félaganna, en það hélt ráðstefnu í tilefni af 50 ára afmæli þess í apríl. Þar var einmitt innlegg um framtíðina og tæknina þar sem kom m.a. dönsk kona, Lene Andersen, sem er rithöfundur, og skýrði afar vel út í fyrsta lagi vandamál samfélaga okkar í dag og þar með þinganna og þingmanna, hversu lítið vit þeir hafa á netinu, möguleikum þess og tækifærum, hvað gerist þar og hvernig heimurinn er í raun að mótast. Mig langar að heyra skoðun hv. þingmanns á því. Lene hafði líka þá kenningu að stefnur, þar með stjórnmálastefnur, og þróun á hverjum tíma mótuðust kannski fyrst og fremst af tækniframförum, í dag af netinu, áður iðnbyltingu og svo getum við farið aftar í verkfærin sem voru notuð á steinaldartímanum. Menn eru að átta sig á því að þannig verða oft til stefnur og straumar en ekki öfugt eins og menn láta alltaf, halda að við getum náð utan um stefnur og strauma og stjórnað þeim. Þannig að spurningin er: Hvernig vinnum við með þessari þróun? Við getum hugsanlega haft einhver áhrif á hana en við þurfum að viðurkenna hana og nýta okkur hana.

Í þessu samhengi langar mig að spyrja hv. þingmann um þá umræðu sem hún nefndi um ný viðskiptamódel, sem eru nýjar lausnir til að halda utan um og vernda höfundarétt með einhverjum hætti: (Forseti hringir.) Hvernig getum við aflað okkur þeirra upplýsinga þegar við fjöllum um þetta mál í nefndinni? Til hverra leitum við? Hvert sækjum við þær upplýsingar til að vera betur upplýst í umræðunni?