144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[14:35]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég var ekki búin að sjá þetta, þetta er náttúrlega mjög loðið ákvæði og ég er alveg viss um að þeir sem reka einkastöðvar mundu ekki vera ánægðir með að vera útilokaðir.

Það er mjög mikilvægt að fara yfir þetta og ég er mjög ánægð með að við séum að taka inn þetta ákvæði, en ég þarf að skoða betur hvort tilefni sé til þess að laga það. Ég hef dálitlar áhyggjur út af þessu, ef t.d. er búið að fletta einhverju efni upp í þessum gagnagrunni og ljóst að það er munaðarlaust, af hverju mega þá ekki bara allir nota það? Það eru alls konar svona hlutir sem þarf eiginlega að taka dýpri umræðu um.

Ég kynntist ágætlega þeim manni, og fyrrverandi menntamálaráðherra og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hitti líka þann mæta mann, sem hefur mjög mikinn metnað og er að vinna að því að búa til nútíma Alexandríu-bókasafn á netinu og hefur verið að afrita alls konar efni, ekki bara bækur heldur líka vídeó, fréttir og fleira. Það er mjög mikilvægt og ég hef haft mikinn áhuga á þessu alveg frá því ég byrjaði á netinu, það fyrsta sem ég gerði á netinu var að skapa list og ég gaf út ljóðin mín á internetinu árið 1995. Það opnaði alveg nýjan heim. Fyrir tíma hins svokallaða Creative Commons-merkis hafði ég einmitt sett inn að allir mættu nota verkin mín ef þeir mundu geta nafns mín og mundu ekki nota efnið til þess að græða á því, en þeir mættu nota það. Þetta er svolítið stemmarinn sem var í árdaga netsins og hefur haldið áfram að vera til og er mikilvægur. Síðan hef ég lengi haft áhyggjur af því og hef bent á það í áratugi núna að við verðum einhvern veginn að varðveita efni á netinu, það verður einhver að passa upp á að taka afrit af öllu á netinu, t.d. netlistinni. Ég var til dæmis með fyrsta (Forseti hringir.) stafræna galleríið á Íslandi fyrir Apple-umboðið, svo allt í einu einn daginn var það horfið. Þetta er eitthvað sem þarf að taka á.