144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[14:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það hefur verið ágætisumræða sem farið hefur hér fram um þessi þrjú frumvörp og ég er eiginlega sannfærð eftir að hafa hlustað á þá sem hér hafa talað, bæði hæstv. ráðherra og hv. þingmenn, að mikilvægt er að við gefum okkur tíma til að fara vel yfir þessi mál, en um leið er það dálítið blóðugt skulum við segja hversu hæg framþróun höfundaréttarins hefur verið miðað við tækniþróunina. Á sama tíma og mér finnst mikilvægt að við gefum okkur tíma í þinginu til að fara yfir þessi mál, þó að, eins og hæstv. ráðherra sagði áðan, að leiðarljósið sé að hafa þetta auðskiljanlegt, gegnsætt og á mannamáli, þá er það nú svo eigi að síður að þetta er umræða sem er tæknilegs eðlis og ég veit að mikil umræða verður um þessi mál í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

En svo það sé sett í samhengi eru þetta áfangar á vegferð sem hófst hér fyrir talsvert löngu. Þegar ég gegndi embætti menntamálaráðherra lagði ég fram frumvarp, að mig minnir árið 2010, sem átti að vera fyrsti áfangi í því að uppfæra höfundarlaun frá 1972 til nútímans. Ætlunin var að ljúka því verki á þremur árum en það gekk ekki eftir, meðal annars sökum fjárskorts og tímaskorts hreinlega. Að einhverju leyti erum við í þessum málum að elta skottið á okkur því að tækninni fer hraðar fram en lagarammanum og hún hefur auðvitað gerbreytt umgengni manna við þau verk sem heyra undir höfundarétt og upp úr því hefur auðvitað sprottið gríðarleg umræða sem heilar stjórnmálahreyfingar hafa verið stofnaðar upp úr, eins og hin alþjóðlega Pírata-hreyfing, en líka fleiri hreyfingar sem eru runnar af skyldum rótum, „Copyleft“-hreyfingin, „Free Software“-hreyfingin, sem snýst fyrst og fremst um hugbúnað og annað slíkt. Við erum kannski ekki alltaf að fást við nákvæmlega sömu viðfangsefnin eða með nákvæmlega sömu nálgun eftir því hver viðfangsefnin eru.

Ég er því þeirrar skoðunar og mér finnst mjög mikilvægt að listamenn svo dæmi sé tekið, og það er það sem við höfum fyrst og fremst verið að ræða hér, geti lifað af list sinni, ekki bara með því að vera á styrkjum frá hinu opinbera, sem ég styð raunar. En það er líka mikilvægt að þeir geti selt verk sín og hafi á þeim ákveðna vernd. En það er ekki endanlega til bóta hins vegar að þeir sem eru fyrst og fremst í útgáfunni taki hagnaðinn af verkunum eins og við höfum séð þróunina verða í tónlistarheiminum sérstaklega. Þar erum við stödd í ákveðnum vanda þar sem milliliðurinn tekur eiginlega til sín það sem kemur inn í kassann, en á móti kemur að við sjáum að listamönnum gengur mjög misvel að fóta sig í þessu milliliðalausa samfélagi sem er að einhverju leyti að verða til á netinu þar sem menn markaðssetja verk sín sjálfir og koma sér sjálfir á framfæri. Það skapar líka vandamál, og hafandi unnið til að mynda hjá slíkum milliliði, í bókaútgáfu, þá veit ég að milliliðirnir hafa líka mikilvægu hlutverki að gegna. Það sem mér hefur fundist, og umræðan hefur í raun verið líka sú, því að hér er auðvitað um að ræða tvær innleiðingar á tilskipunum, að innan Evrópusambandsins hefur umræðan verið sú að af því að tæknin hefur einmitt þróast hratt þá hafa hinir ólöglegu kostir ef við getum sagt það í niðurhali verið miklu einfaldari en hinir löglegu kostir. Meðan hinir löglegu valkostir eru flóknir og erfiðir í framkvæmd þá velur fólk að sjálfsögðu ekki þá löglegu valkosti, og þá er ég að vitna til þess að hala niður kvikmyndir, tónlist og annað slíkt.

En það sem hefur gerst líka er að meðvitund manna um höfundarétt hefur gerbreyst samhliða tækniframförum. Það er ekki nema eðlilegt. Mér finnst það vera eitt af þessum stóru viðfangsefnum sem við eigum að velta fyrir okkur hver nákvæmlega er meðvitund ungu kynslóðarinnar um höfundarétt, hver upplifun fólks er á því einhvern veginn að það sé bara eðlilegt að það geti gengið í listaverk í gegnum netið án þess að greiða fyrir þau. Þurfum við ekki að bregðast við því með einhverjum hætti? Vegna þess að að einhverju leyti finnst mér við vera, eins og hv. þingmenn sem hafa talað hér á undan mér nefndu, að fást við þróun sem er miklu hraðari en lagaramminn nær að fylgja.

Eins og ég nefndi áðan er fólk með misjafnar skoðanir á þessum málum eftir því hvað um er að ræða. Ég tók sem dæmi listaverkin, en ég hef hins vegar líka verið á því að hugverkavernd geti gengið allt of langt. Ég nefni sem dæmi einkaleyfi sem eru nýtt beinlínis til þess að kúga fátækt fólk í fátækari hlutum heimsins, þegar um er að ræða til dæmis einkaleyfi á fræjum og öðru slíku, þar sem stórfyrirtæki taka beinlínis yfir landbúnaðinn á þeim svæðum. Við getum rætt hugverkaréttindi í tölvugeiranum og ég nefndi hreyfinguna um „Free Software“ í þeim málum þar sem markmiðið hefur hreinlega verið að útbúa frjálsan hugbúnað þannig að allir geti nýtt hugbúnað af því að hann snúist um að deila þekkingu og henni eigum við öll að hafa aðgang að án tillits til efnahags. Ég get tekið undir þetta. Mér finnst í þessum efnum dálítið ólík viðmið gilda þegar við erum að ræða um, getum við sagt einkaleyfi á þekkingu og hins vegar höfundarétt á einhverjum sköpunarverkum sem snúast um lífsviðurværi þess sem skapar. Það er einhver ballans sem við þurfum að finna þarna á milli þegar við fetum það einstigi milli þess að finna sanngjarnar leiðir í höfundaréttarlöggjöfinni.

Eins og hv. þingmenn heyra er ég kannski meira að ræða stóru línurnar en akkúrat þessi frumvörp. Ég vil ítreka það sem ég sagði í byrjun máls míns að á sama tíma og ég tel mikilvægt að við uppfærum þennan lagabálk þá held ég að sé líka mikilvægt að þingmenn átti sig á inntaki þessara mála og gefi sér tíma til að skoða þau. Ég held að líka sé mikilvægt að við eflum umræðu um þessi mál á vettvangi stjórnmálanna því að þar eru gríðarlega stór álitaefni. Umræðan hefur kannski fyrst og fremst farið fram hjá rétthöfum á sviði lista, hjá þeim lögfræðingum sem sérfróðir eru um höfundarétt og áhugamönnum um þessi mál. Hún hefur kannski ekki náð því almenna flugi sem hún þyrfti að ná. Ég held því að það sé líka verkefnið okkar sem hér erum að efla umræðu um þessi mál því að þetta varðar og mun varða okkur öll mjög miklu máli, bæði í heimi sem er að verða æ tæknivæddari, en líka í samfélagi eins og okkar sem ég vona að eigi eftir að byggjast æ meira upp á hugviti okkar. Ég held að það skipti alveg gríðarlega miklu máli að við eflum þessa almennu umræðu. Ég ætla í sjálfu sér ekki að lengja umræðuna meira um málið en vænti þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fái tíma til að fara yfir þessi mál og eiga svo umræðu við okkur hin hér í þingsal í góðu tómi.