144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[14:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Hvað varðar síðara atriðið þá eru það vangaveltur sem ég viðraði hér áðan. Við sem erum af eldri kynslóð höfum þessa hugmynd um undirliggjandi höfundarrétt en mér er til efs að sú hugmynd sé jafn lifandi í hugum hinna yngri kynslóða, þ.e. að hún sé svona almennt uppi á borðum. Þó að talsvert hafi verið gert í því að kynna þetta hugtak þá hefur það oft verið gert á mjög neikvæðum hátt. Til að mynda þegar maður leigir sér mynd með fullkomlega löglegum hætti þá situr maður undir mjög langri auglýsingu þar sem sagt er: Þú mundir nú ekki stela bíl en ætlar að stela kvikmynd. — Maður verður reiður og hugsar: Ég vildi ég hefði tekið þessa mynd ólöglega til að ég þyrfti ekki að hlusta á þessar skammir, [Hlátur í þingsal.] ég sem sit hér og er búin að borga 750 kr. í sjónvarpinu heima hjá mér fyrir að horfa á þetta. Þetta er satt að segja ekki jákvæð leið til þess að vekja meðvitund um höfundarétt.

Kannski er stóri vandinn við þá stofnun sem hefur verið að fást við þetta að það hefur ekki verið nægilega jákvæð nálgun. Þetta hefur aðallega falist í því að draga einhverja unglinga fyrir dómstóla og sekta þá um himinháar fjárhæðir, í staðinn fyrir að reyna að taka þetta með próaktívari hætti.

Hvað varðar milliliðina þá tek ég undir með hæstv. ráðherra. Ég verð að segja að stundum hafa milliliðir hlutverki að gegna, við ritstjórn, listræna aðstoð og annað slíkt, og ég segi það af eigin reynslu og annarra af því. Auðvitað er það óheppileg þróun þegar milliliðirnir fara síðan að taka meiri hlutann af því sem kemur inn fyrir listaverkin sem er fyrst og fremst sköpunarverk listamannanna sjálfra. Hvað ætlum við að gera þegar við sjáum nýja milliliði spretta upp eins og hæstv. ráðherra bendir á, þ.e. í markaðssetningu og öðru, á þessum (Forseti hringir.) nýju tímum? Á móti koma frábær dæmi þar sem listamenn (Forseti hringir.) gera þetta allt sjálfir og ná gríðarlegum árangri. (Forseti hringir.) Svarið er: Ég er ekki með patentlausn í þessu.