144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[14:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ágætt svar og verð reyndar að taka það fram að ég deili sömu áhyggjum varðandi það að einhverjir aðilar á markaðnum stjórni einir öllu. Því miður virðist það pínulítið vera tilfellið en vonandi verður auðveldara að brjóta það upp á netinu en annars staðar vegna þess að byrjunarkostnaðurinn er ekki endilega svo mikill þar. Hver sem er getur sett upp vefkerfi og hafið dreifingu á einhverju eða verið með einhverja þjónustu, menn gera þetta bara að gamni sínu nú til dags. Maður stofnar hins vegar ekki bensínstöð að gamni sínu; það þarf mikla fjárfestingu í það.

Að því sögðu er alveg þess virði að benda á að þegar við tölum um leigu á netinu þá tölum við meira eða minna bara um Netflix og ef við tölum um tónveitur þá tölum við meir eða minna um Spotify, þannig að það er vissulega ástæða til þess að hafa þetta í huga þegar við tölum um samkeppnismarkað því að þá þarf auðvitað að vera samkeppnismarkaður. Það þarf að tryggja að svo sé. Ég ætla ekki að fjalla meira um það í þessu andsvari.

Mig langaði hins vegar að spyrja hv. þingmann að öðru vegna þess að hún fór inn á mjög áhugavert svið sem er hugmynd ungu kynslóðarinnar um höfundarétt. Nú þarf almennt ekki að borga fyrir efni á netinu nema maður sé sérstaklega að leita að einhverju sem kostar peninga og er erfitt að nálgast nema með því að fara inn á tilteknar síður sem eru troðfullar af klámauglýsingum og guð má vita hverju, eða þá að maður borgar fyrir það. Maður fer á YouTube og finnur skemmtiefni, maður finnur CollegeHumor, maður finnur meira að segja fyrirlestra frá Stanford. Ég tileinkaði mér smá eðlisfræði um daginn með Leonard Susskind frá Stanford University, algjörlega ókeypis á YouTube. Þetta hlýtur að gera það að verkum að fólk á erfiðara með að gera sér grein fyrir því hvað falli raunverulega undir höfundarétt og hvað ekki. Það kom meira að segja fyrir mig fyrir mörgum árum þegar ég rakst á eðlisfræðifyrirlestra á YouTube, sem hétu Physics for Future Presidents, svolítið fyndið að vera orðinn stjórnmálamaður núna eftir að hafa hlustað á þá, en svo komst ég að því eftir að hafa séð allt saman að þeir áttu ekkert að vera þarna. Það kom í ljós þegar ég þakkaði fyrirlesaranum fyrir þessa frábæru fyrirlestra. Það getur verið mjög erfitt að sjá fyrir fram þegar maður rekst á eitthvað á netinu hvort það sé höfundaréttarvarið eða ekki.

Ég velti fyrir mér (Forseti hringir.) hvort hv. þingmaður hafi einhverja sýn á það hvernig sé hægt að takast á við þetta.