144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[15:02]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að byrja á að skoða stóru myndina varðandi höfundaréttinn. Píratar vilja endurskoðun höfundaréttar, ekki afnám hans, í ljósi upplýsingatækninnar sem við erum búin að vera að tala um í dag. Ef þetta er vel gert, þ.e. farið eftir því sem menn eru byrjaðir að tala um úti um allan heim, m.a. á alþjóðaviðskiptaráðstefnunni, um að það verði að finna réttan „ballans“ milli höfundarétthafa annars vegar og hins vegar þeirra sem neyta höfundaréttarvarins efnis, mun það þýða miklu meiri hagsæld fyrir alla. Ef ekki er faglega að endurskoðuninni staðið aftur á móti getum við óafvitandi verið að setja upp alls konar hindranir sem takmarka meginmarkmið hugverkaréttar, sem eru framþróun og nýsköpun, eins og kemur fram í skýrslu alþjóðaviðskiptaráðstefnunnar um höfundaréttarverðmæti, internetið og deilisamfélagið. Ef við pössum ekki upp á þetta jafnvægi við endurskoðun höfundaréttar, lögum ekki það ójafnvægi sem er komið og finnum nýjan ballans vegna upplýsingatækninnar getur það kostað okkur mikið. Það er því mjög mikilvægt við endurskoðun á höfundarétti að það sé gert vel, að allir aðilar komi að borðinu og við finnum lausn sem allir geta verið sáttir við.

Ein af þeim lausnum sem við þurfum að finna tengist réttmætum greiðslum. Hvernig ætlarðu að framfylgja í nettengdum heimi gömlu reglunum til að tryggja að höfundarétthafar fái réttmæta þóknun fyrir sinn snúð? Ef allt er orðið tengt og menn geta sótt efnið á svipstundu og maður ætlar að framfylgja reglunum eftir gömlu leiðinni þarf að ritskoða allt internetið. Byrja á því að njósna um alla netumferð og svo að ritskoða internetið. Ég held að flestir séu farnir að átta sig á því að við erum ekki tilbúin til þess að fara þá leið við að framfylgja reglum. Og þá er spurningin: Er það nauðsynlegt til þess að tryggja markmiðið, sem er að höfundarétthafar fái réttmæta greiðslu fyrir að hafa staðið í því að búa til efnið sem hægt er að kaupa og versla með?

Hver er staðan varðandi tækniþróunina núna? Eins og hefur komið fram í þessari umræðu eru ýmis viðskiptamódel byrjuð að ryðja sér til rúms, sem eru farin að leysa þetta vandamál. Hinn frjálsi markaður er farinn að leysa það stóra vandamál að ofboðslega miklu leyti, að mismiklu leyti þó eftir því hvers konar höfundaréttarvarið efni við er átt. Þeir sem lengst eru komnir eru náttúrlega tölvuleikjaframleiðendur, enda starfa þeir í þessum stafræna bransa. Þeir hafa farið ýmsar leiðir. Til dæmis í spjaldtölvum þarf að borga sig inn í leikina og það er svolítið fastara umhverfi, fólk er að spila við aðra, eins og í leiknum sem CCP býr til, Eve Online. Það er hægt að spila við aðra spilara og maður þarf þar af leiðandi að fara inn í heiminn, og þar hafa framleiðendur tökin. Annar tölvuleikjaframleiðandi, Steam, gerir allt viðmót og aðgengi að leikjunum svo ofboðslega þægilegt og notendavænt að fólk er tilbúið til þess að kaupa leikina og geyma hjá þeim og þeir halda utan um allt. Það nýjasta sem ég heyrði var að meira að segja þeir sem eru enn þá í þeim bransa að kaupa geisladiska eða þeir sem hala niður forriti og geyma á sinni tölvu og eru bara sjálfir að leika sér, geta ekki tekið því rólega því þessir leikjaframleiðendur eru búnir að finna nýja leið. Þeir eru sífellt að uppfæra leikina. Maður er alltaf að spila gamla útgáfu og þarf jafnvel á hverjum degi eða annan hvern dag að sækja leikinn upp á nýtt og setja hann upp og fólk nennir því ekki. Það er því miklu auðveldara að fá leikinn og fá alltaf sjálfkrafa uppfærslu. Þetta kunna þeir náttúrlega sem eru í tölvuleikjaframleiðslu.

Annað er tónlistariðnaðurinn. Þar sjáum við þetta vel og kemur kannski svolítið fram í einu af þeim frumvörpum sem við erum að ræða, þ.e. mál nr. 702, um endurskoðun höfundalaga, einkaréttindi höfunda og samningskvaðir. Stóru bardagalínurnar þegar kemur að því hvað listamenn eiga að fá greitt fyrir sín verk og hvernig þeir eiga að fá greitt eru ekki lengur dregnar á milli höfundarétthafanna, höfundaréttarsamtaka eins og STEF og slíkra, og þeirra sem hala niður ólöglegu efni vegna þess að nú eru komnar efnisveitur eins og t.d. Spotify. Samkvæmt rannsókn í Noregi sem gerð var 2008–2012, henni lauk fyrir þremur árum, minnkaði ólöglegt niðurhal á tónlist á þessu tímabili um 82,5%. Sama hér, segir hæstv. menntamálaráðherra. Stóra víglínan er því orðin sú sem við sjáum í þessu frumvarpi, að tryggja að stóru efnisveiturnar, sem verða ofboðslega stórar og valdamiklar, tryggi að listamennirnir fái greitt. Þar er nú aðalvíglínan. Ekki lengur sú að fólk sé að stela efninu ólöglega á internetinu.

Í myndefnisiðnaðinum eru menn komnir styttra en eru þó komnir af stað, Netflix er komið og slíkt. Þetta er náttúrlega aðeins öðruvísi iðnaður, þú horfir ekki jafn oft á sama myndefnið eins og þú hlustar á sama lagið, en hið sama er samt sem áður að eiga sér stað þar. Menn eru að finna ný viðskiptalíkön. Þetta er því að gerast og því er svo mikilvægt þegar við ætlum að endurskoða höfundarétt að stíga varlega til jarðar, vegna þess að hinn frjálsi markaður er að leysa það vandamál að höfundarétthafar fái greitt. Við þurfum ekki að fara þá leið að fórna friðhelgi einkalífsins og fórna upplýsingafrelsinu, en því verður fórnað ef við ætlum að tryggja rétt höfunda eftir gömlu leiðinni, gömlu höfundaréttarleiðinni. Það er ofboðslega mikilvægt að við stígum varlega til jarðar og skemmum ekki tækifæri og setjum í lög og reglur ákvæði sem verða síðan orðin óþörf, gjörsamlega óþörf eftir mjög skamman tíma en sitja samt sem áður eftir í bókunum. Við verðum því að fara mjög varlega í alla þessa vinnu.

Þessi þrjú frumvörp eru komin fram mjög seint en við þurfum að fara mjög vel yfir þau í nefndinni og það væri gott ef hægt væri að fá mikið af umsögnum og vinna þetta áfram í sumar. Píratar eru boðnir og búnir við að aðstoða við það. Við verðum að finna jafnvægi milli höfundarétthafanna og neytendanna og eins og ég nefndi áðan eru allir að byrja að átta sig á því, alþjóðaviðskiptastofnunin og aðrir, finna nýtt jafnvægi þannig að við getum lifað saman og þurfum ekki að fórna borgararéttindum okkar til þess að ná fram þessum mikilvægu markmiðum.

Nú höfum við verið að tala um höfundarétthafa og hvernig alls konar ný viðskiptamódel og deilihagkerfi eru að breyta landslaginu algjörlega. Ef við stígum út í stærra samhengi, sem er skemmtilegt, þá getum við skoðað deilihagkerfið. Þá ertu með einhvers konar „networks“ eða „platforms“ — mig vantar eitthvert íslenskt orð yfir það — einn vettvang, infrastrúktúr, algóritma og viðmót eins og t.d. Airbnb, á markaði hótelrekstrar — eða ekki hótelrekstrar, heldur getur fólk leigt þar húsnæði. Uber er líka þannig, sumir vilja flytja fólk á milli staða og aðrir vilja vera fluttir á milli staða.

Síðan er fjármögnunin. Ég var á mjög áhugaverðri ráðstefnu fyrir helgi, Point Zero, í Gamla bíó. Fyrsti fyrirlesari talaði um hvernig hægt er að tengja saman þá sem hafa fjármagn og þá sem þurfa fjármagn í sína nýsköpun og ekki bara nýsköpun heldur fyrir alla virðiskeðjuna, frá því að maður byrjar með nýsköpunarfyrirtæki og fer á markað og stækkar fyrirtækið. Í staðinn fyrir hefðbundnu leiðirnar eru að koma inn nýjar leiðir sem tengja beint þann sem vantar fjármagn og þann sem vill fjármagna, í staðinn fyrir að fara í gegnum allan þennan gamla infrastrúktúr, að þurfa að fara í bankann og fá lán og allt það. Þetta er því allt að gerast. Helgi Hrafn Gunnarsson, hv. þingmaður Pírata, benti einmitt áðan á þessar leiðir varðandi fjármögnun. Þetta er að gerast líka. Þá getum við komið aftur að höfundaréttarhliðinni á þessu. Tæknin er komin til að vera og þessi deilihagkerfi eiga bara eftir að stækka, ég ætla að ræða það rétt á eftir, ég ætla fyrst að klára þessa hugsun. Hv. þingmaður Helgi Hrafn Gunnarsson benti á leiðir til þess að fjármagna ýmis verkefni, þær eru að verða auðveldari. Þetta er allt að koma, þannig að menn eru ekki bara að finna betri leiðir til þess að fá greitt fyrir höfundaréttarvarið efni heldur finna nýjar fjármögnunarleiðir eins og t.d. Kickstarter o.s.frv. Þá fá menn fyrir fram greitt fyrir að búa til efni sem þeir síðan veita öðrum á ákveðnum forsendum sem fólk er tilbúið að ganga að. Fjármögnun á sköpun, á listsköpun, er því líka að verða auðveldari á sama tíma og tæknin til þess að skapa er að verða ódýrari. Fólk er kannski með í tölvunni sinni hljóðnema og fleira og getur keypt sér lítil stúdíó með langtum meiri gæði en það sem kostaði tugmilljónir fyrir nokkrum árum síðan, og síðan er það náttúrlega aðgengið að kúnnanum í gegnum netið.

Hæstv. menntamálaráðherra nefndi áðan að sala á geisladiskum og slíku færi minnkandi. Ég las einmitt skýrslu frá London School of Economics, þar sem bent er nákvæmlega á þetta. Salan fer að hrynja í kringum 2004, jafnast síðan aðeins út en heldur áfram að falla alveg frá 2008 til 2011. En á sama tíma fer tekjuinnstreymi vegna tónleika upp. Á sama tíma er internetið náttúrlega að eflast, en þetta stoppar 2011, það eru fjögur ár síðan. Við vitum hvað hefur gerst á þeim fjórum árum hvað varðar netveiturnar. En ef við horfum bara á línuna þá hafa heildartekjur tónlistariðnaðarins ekki verið að fara niður, þær hafa verið þær sömu. Fólk ver því sömu peningum í tónlist og áður, það bara gerir það á öðrum stað. Það er óþægilegt fyrir þá sem hafa sett upp sín viðskiptamódel á gömlu forsendum og þá er auðvitað þrýstingur á stjórnmálamenn að bregðast við. En við erum sem betur fer komin á þann stað núna að við erum byrjuð að átta okkur á því að ef við ætlum að fara að framfylgja þessum reglum þýðir það að við fórnum friðhelgi einkalífsins og upplýsingaréttar, það þýðir ritskoðun á internetinu og njósn um netumferð. Ég held að langflestir séu komnir að þeirri niðurstöðu að við eigum ekki að fara þá leiðina. Við eigum að finna hinn rétta ballans og verðum að stíga varlega til jarðar meðan hið frjálsa framtak er að finna lausnir á þessu vandamáli.

Ég vil líka bæta því við að það er alveg sama hvort menn eru til vinstri eða hægri í pólitík, t.d. benti Cato Institute í Bandaríkjunum, rammhægrisinnuð stofnun, á þetta líka, að við þurfum að endurskoða höfundarétt hvað þetta varðar. Það er því að skapast mjög mikill samhljómur um þetta.

Ef við skoðum aftur stóra samhengið í deilihagkerfinu, svo ég skjóti því aðeins inn hérna, þá bendir Drucker á að í stóru tæknibyltingunum sem orðið hafa síðustu 500 ár, prentbyltingunni, iðnbyltingunni og núna upplýsingatæknibyltingunni, eru menn fyrstu 50 árin að gera sömu hlutina en bara hraðar og ódýrar. Svo kemur byltingin, og þar erum við stödd núna. Getið þið ímyndað ykkur þá byltingu að tengja beint á milli fólks án milliliðanna? Þá er bara eitt „platform“, einn „infrastrúktur“ þar sem hægt er að tengja saman þann sem býr til verðmætin og þann sem neytir þeirra verðmæta. Þetta er að gerast í flestum iðnaði, minnst þó í framleiðslu. Það er mikilvægt fyrir okkur sem stjórnmálamenn og alla sem hafa áhuga á stóra samhenginu — við stjórnmálamenn erum kannski ekkert mikið í því að horfa á stóra samhengið, við erum svo oft fastir í kjörtímabilum og svona, en það er samt mikilvægt fyrir stjórnmálamenn að átta sig á þessu, stíga aðeins til baka og horfa á heildarmyndina og sjá hvað mun gerist átta ár, tólf ár, 20 ár fram í tímann. Öll þessi „platform“ sem tengja þann sem veitir þjónustu, vöru og virði beint við þann sem neytir þess, þiggur það og kaupir, og síðan lagasetningin. Við erum t.d. í atvinnuveganefnd að fjalla um lagasetningu varðandi fólksflutninga og þar er ekkert fjallað um Uber. Þeir voru ekki búnir að taka flugið.

Í lokin vil ég bara minna á að enginn iðnaður mun verða ósnortinn af þessu, allir munu verða „disröptaðir“. Það eru nokkur prinsipp sem skipta máli sem ég lærði einmitt á ráðstefnunni sem ég var á fyrir helgi, Point Zero. Eitt af því sem skiptir máli er kostnaðurinn við að taka ranga ákvörðun. Það er ekki mikill kostnaður í því að taka ranga ákvörðun þegar maður er að horfa á YouTube-vídeó, en ef maður tekur ranga ákvörðun þegar maður fjárfestir er það mikill kostnaður. Síðan er það kostnaðurinn við það að fara af stað með verkefni. Hann hefur áhrif á það hvort menn séu tilbúnir að fara í framleiðslu á hlutum. Sá kostnaður er að lækka, þrívíddarprentararnir eru að koma inn, þannig að allur framleiðsluiðnaðurinn mun breytast. Kostnaður við að leigja út heimili manns er að lækka af því að það er komið kerfi þar sem hægt er að búa til traust á milli fólks. Þetta er eitthvað sem við verðum að hafa í huga í öllu okkar starfi á Alþingi. Þetta er að koma inn, bara sterkar og sterkar. Endurskoðun höfundaréttar er bara fyrsta skrefið, en við þurfum að vera mjög meðvituð (Forseti hringir.) um þetta og stíga mjög varlega til jarðar til að finna rétta jafnvægið.