144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[15:20]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Í þeim frumvörpum sem liggja fyrir okkur núna er „the devil in the detail“, felur djöfullinn sig í smáatriðunum. Þess vegna er svo mikilvægt að við setjum ekki óvart, í einhverju ógáti, upp einhvers konar hindranir sem eru síðan til bölvaðra vandræða, sem hagsmunir skapast í kringum og erfitt verður að afnema o.s.frv., og valda einfaldlega ofboðslega miklum skaða. Lykilatriðið er náttúrlega í máli 702, um einkarétt höfunda og samningskvaðir. Erum við að fara að festa listamenn í því að aðrir geti samið fyrir þá án þess að þeir geta sagt sig frá því? Eða er verið að taka alla saman og menn geta sagt sig frá því ef þeir vilja? Mér sýnist það en ég er ekki alveg viss. Við verðum að passa okkur að festa ekki listamenn í einhverju. Þarna sjáum við hvar bardagalínurnar eru í dag, menn reyna með þessum lögum að koma með viðbrögð við því hvað Spotify og aðrar efnisveitur eru orðnar stórar. En Spotify semur við stóru aðilana sem eiga hugverkaréttinn. Það er enn þá í þeim samningum. Ein ástæðan fyrir að listamenn fá svona lítið er að í gömlu samningunum eru enn þá alls konar þættir, þannig að stóru milliliðirnir sem voru áður taka allt til sín en listamennirnir fá ekkert.

Í framtíðinni, ef listamennirnir eru frjálsir, geta þeir haldið allri virðiskeðjunni, fyrir utan þá prósentu sem Spotify tekur. Þetta er eitt af stóru atriðunum þar.

Það er ofboðslega mikilvægt að við sitjum vel yfir þessu. Við þurfum að fá umsagnirnar, liggja vel yfir þeim í sumar og gera þetta faglega saman næsta haust, taka aftur upp þráðinn. Svo er það til dæmis varðandi lengd verndartíma hljóðrita. Ef markmið hugverkaréttar er að auka framþróun og efla framþróun og nýsköpun, sem kemur einmitt fram í skýrslu Alþjóðaviðskiptastofnunar, eða er almennt samþykkt, mun það að breyta 50 (Forseti hringir.) árum eftir dauða höfundar upp í 70 ár eftir dauða höfundar ekki stuðla að (Forseti hringir.) framþróun eða nýsköpun. Þetta er náttúrlega „corporatism“.