144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

byggðaáætlun og sóknaráætlanir.

693. mál
[15:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að segja örfá orð um það mál sem er hér til 1. umr. Það er verið að leggja fram frumvarp til laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Markmið þessara laga er gott og við fyrstu sýn virðist margt vera ágætt þarna á ferðinni, að verið sé að auka samráð milli ráðuneyta, stjórnsýslu og sveitarfélaga og auka ábyrgð á sviði byggðasamfélagsþróunar hjá þessum aðilum.

Það sem stendur upp úr hjá mér í þessum málum er að nægt fjármagn sé tryggt í þessi brýnu verkefni. Hve gott það er að tvinna saman verkefni eins og vaxtarsamninga, menningarsamninga, sóknaráætlun og byggðaáætlun fer eftir því hve mikið fjármagn fylgir með þeirri aðgerð. Við þekkjum það að mikill niðurskurður hefur verið í sóknaráætlunum landshluta í síðustu tveim fjárlögum. Þá fóru einungis 100 milljónir í þetta verkefni; það átti að setja 15 en náðist að bæta þar við 85 milljónum. Við þekkjum það líka að þessi upphæð var komin upp í 400 milljónir árið 2013. Það var auðvitað gífurleg óánægja hjá sveitarstjórnarmönnum og almenningi í landinu sem hafði notið góðs af þeirri framsæknu stefnu sem fólst í sóknaráætlun landshluta og mikil ánægja ríkti yfir þvert á flokka. Maður heyrði síðan mikinn ótta hjá sveitarstjórnarmönnum um í hvaða farveg þetta væri að fara.

Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að stokka upp í þessum málaflokki og talað um að samhæfa þarna ýmsa þætti. Það má vel vera að það sé vænlegt og af hinu góða, ég ætla ekki að útiloka það, langt í frá, en í umsögn fjárlagaskrifstofunnar segir: „Verði frumvarpið lögfest er því gert ráð fyrir að útgjöld þessara verkefna í fjárlögum verði óbreytt.“ Byggðaáætlun á að fá rúmlega 320 milljónir, sóknaráætlun 102 milljónir, Byggðastofnun rúmlega 147 milljónir, til atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni rúmlega 176 milljónir og samningar við sveitarfélögin um menningarmál 207 milljónir og ýmis framlög til mennta- og menningarmálaráðuneytis rúmar 19 milljónir, samtals 973 millj. kr.

Svo þurfum við auðvitað að bæta við fjármagni í þau brýnu verkefni sem eru mikils virði fyrir uppbyggingu landsbyggðarinnar. Ef sá vilji kemur fram í næstu fjárlögum þá gera menn gagn með því að skoða þannig samþættingu, en ef samþættingin stendur bara ein og sér og engu fjármagni verður bætt í þessa liði þá held ég að þetta þjóni ekki þeim tilgangi sem lagt er upp með.

Ég vona það besta og mun að sjálfsögðu fjalla um þetta mál í atvinnuveganefnd. Þangað fáum við umsagnir sveitarfélaga og fjölda aðila sem láta sig málið varða.